Vogin 23. september - 22. október

Vogin 23. september - 22. október Vogin 23. september - 22. október

Með báðar hendur á stýri

Elsku Vogin mín, þú ert léttasta loftmerkið og tengir þig þar af leiðandi svo vel við það að búa á Íslandi eða öðrum slíkum lítt spennandi stöðum og þér hentar ekki logmolla alla daga, þessvegna ert þú í óðaönn að skapa skemmtilegri tíðni fyrir þig.

Þú munt mynda hóp eða hópa á árinu eða ganga í slíka, með það að leiðarljósi að skipta máli plús að hafa gaman og þetta mun laða til þín nýtt fólk sem eflir gleði þína og ánægjuvog. Í upphafi gætirðu verið eitthvað kvíðin yfir breytingum, en allir taka þér svo vel að það er eins og þú sért klappaður inn á sviðið og líka þegar þú yfirgefur það.

Það eru búin að vera mikil kaflaskil hjá þér og þú ferð inn í 2020 með báðar hendur á stýrinu því þarft ekki að beygja þig fyrir neinum. Það er mikið frelsi í þessu ári sem táknar óvenjumikið af ferðalögum og allskyns verkefnum sem gefa þér að vera mikið á fartinni og nýjir staðir blasa við þér og þú verður svo niðursokkin í þetta allt saman fyrstu mánuði ársins að þeir munu líða eins og örskot.

Maí mánuður gefur þér öryggi og þú gerir vel við svo marga, en sumarið gæti líka tengst vinnu og allskonar verkefnum sem eru spennandi því lífstalan fimm er að skreyta þetta tímabil. Þér finnst svo gaman að öllu sem þú tekur þér fyrir hendur og ég sé þú klappar sjálfri þér á bakið og þótt að allt þetta fólk sé í kringum þig, þá þarftu í raun ekki á neinum að halda nema sjálfri þér.

Ágúst, september, nóvember og desember fullkomna líf þitt, því þá gerirðu heimili þitt á heimsklassavísu notalegt og nostrar bæði við sjálfa þig og heimilið og býður ástinni í partý. Þarna er Venus að skjóta ástarörvum sínum í gríð og erg, svo nýjar ástir kvikna með sprengikrafti, ást sem er til staðar verður líkt og hún hafi fengið vítamínsprautu og endurnýjast, en sú ást sem hefur fært þér sorg hvellspringur eins og gamalt dekk og verður ekki hægt að gera við, svo miklar breytingar, kjarkur og kraftaverk mæta þér elskan mín á þessu tímabili.

Þetta ár verður að öllu leyti skemmtilegra en síðasta ár og gefur meiri möguleika í sambandi við vinnu og heimili og ýmsar Vogir taka undir sig stökk og flytja erlendis í nám eða bara til að dvelja, en allar komið þið aftur, sama hversu langan eða stuttan tíma þið dveljið á erlendum slóðum.

Byrjaðu þetta blessaða ár á því að fá þér kassa og skrifaðu í hann á litlum allskonar blöðum fyrir hvað þú getur verið þakklát. Kallaðu svo þennan kassa ÞAKKLÆTISKASSANN, því þakklæti hjálpar þér nefnilega að komast áfram í einu og öllu

Áramótaknús og kossar, Sigga Kling

Stjörnuspár - smellið til að skoða

Aftur á yfirlitssíðu