Kærastalaus en ætlar að massa valentínusardaginn

Ágústa Eva Erlendsdóttir.
Ágústa Eva Erlendsdóttir. Ljósmynd/Karl R. Lilliendahl

Ágústa Eva Erlendsdóttir leikkona og söngkona býr ein í Hveragerði með börnin sín tvö. Janúar var töluvert þungfær og naut fjölskyldan þess að vera inni og hafa það notalegt. Húsmóðirin safnaði orku í næstu verkefni en ný sería af Beforeigners er í bígerð og bíður hún eftir kallinu. Áður en það gerist ætlar hún að taka valentínusardaginn með trompi þótt hún sé ekki búin að finna hinn eina rétta sjálf. 

„Lífið í Hveragerði er að þiðna. Við erum náttúrlega búin að vera með snjóað fyrir dyrnar líkt og viða annars staðar á landinu. Innlyksa stendur, skrifað með fingri í móðu, á stofuglugganum hjá mér. Búið að vera rosalega kósí hjá okkur í híði og skjóli frá brjálaða veðrinu, við getum ekki kvartað yfir þeim lúxus,“ segir Ágústa Eva. 

Þegar hún er spurð út í sjónvarpsþættina Beforeigners sem framleiddir voru hjá HBO og sýndir á síðasta ári kemur í ljós að ný sería er í vinnslu. 

„Beforeigners fékk rosalega góðar viðtökur. Verðlaun áhorfenda, einróma lof gagnrýnenda á Norðurlöndum, sló niðurhalsmet á sjónvarpsefni í Noregi og svo núna 17. febrúar fara þættirnir okkar í streymisveitu HBO NOW í Bandaríkjunum eins og þeir leggja sig. Þetta eru bara alger draumaviðbrögð og ágætis árangur hjá frændum okkar,“ segir hún og bætir við að byrjað sé að skrifa aðra seríu.

„Það var verið að setja af stað gerð seríu 2 bara núna fyrir nokkrum dögum og hvílir mikil leynd yfir öllum skrifum og sögulegri framvindu. Ég er samningsbundin þeim og bíð bara eftir „halla“ (kúl halló á norsku).“

Hvað var skemmtilegast við þessa vinnu í þáttunum?

„Maður labbar alltaf inn í nýja fjölskyldu í svona verkefnum þar sem fólk vinnur mikið og náið saman yfir langan tíma. Þannig að það er það sem stendur upp úr; nýja fjölskyldan mín með öllum þeirra kostum og göllum.“

Ágústa Eva Erlendsdóttir og Krista Erika Koson­en á frumsýningu Beforeigners …
Ágústa Eva Erlendsdóttir og Krista Erika Koson­en á frumsýningu Beforeigners í Osló í ágúst.

Þegar Ágústa Eva er spurð hvort hún sé búin að finna ástina segir hún svo ekki vera en hún er spennt fyrir 2020. Hún hlakkar til að sjá hvað kemur. 

„Maður er alltaf vígbúinn með glott þegar kemur nýtt ár; hverju á nú að kasta í mann? Þannig að ég er bara nokkuð kát, hlakka til alls sem kemur.“

Hvað ætlar þú að gera öðruvísi í ár en í fyrra?

„Ég ætla bara að halda áfram að gera það sem ég geri, þegar ég geri það. Halda áfram að vera temmilega spontant og kærulaus en kannski ég fari meira í ferðalög svona utan vinnu, vera ekki svona fjandi heimakær, labba jafnvel upp á einn hól eða upp brekku með nesti.“ 

Ágústa Eva með dóttur sinni Rebekku sem syngur eins og …
Ágústa Eva með dóttur sinni Rebekku sem syngur eins og engill. Ljósmynd/skjáskot Instagram

Síðasta sumar sleit Ágústa Eva krossband þegar hún ákvað að taka 185 kílóa mann í bóndabeygju. Hún segist ennþá vera að súpa seyðið af því en það horfi til betri vegar. 

„Ég er komin á ról eftir endurhæfingu eftir krossbandsslit og aðgerð frá því síðasta sumar. Það er nú til vídeó af því þegar það gerðist. Krossbandsslit í beinni fyrir framan mörg þúsund manns og með verst ígrunduðu ákvörðunum sem ég hef tekið á lífsleiðinni þegar ég tók mann í bóndabeygju sem var þá 185 kíló á þyngd. Ég veit ekki hvað hann er þungur núna en ég skora á hann í sömu viðureign næsta sumar og þá er eins gott að hann verði léttari,“ segir Ágústa Eva og hlær. 

„Þannig að núna er ég bara að bretta upp ermarnar og skvetta köldu vatni í andlitið fyrir komandi viðureignir. Fyrst á dagskrá er að takast á við Allra bestu lög listamannsins Prince. Það mun gerast 14. febrúar næstkomandi á sjálfan valentínusardaginn á Hard Rock. í þeirri viðureign verður sérvalið lið með mér; Ómar Guðjónsson á gítar, Doddi á trommur, Óskar á bassa og Tommi Jóns á hljómborð og synta. Ég mæli með fjólubláum miða en í honum er innifalið sæti, Prosecco frá Ölgerðinni og fleira músserí í tilefni ástarinnar. Sama hvort fólk er með vinum eða eitt, í hóp eða á tvöföldu deiti. Það verða líka auðir miðar á barnum og pennar. Það er til þess að koma á framfæri kveðjum og slíku. Bandið mun lesa upp ástarkveðjurnar og skilaboðin á milli laga. Lofa að þetta verður besti staðurinn til að eyða valentínusardeginum á,“ segir Ágústa Eva og bætir við: 

„Svo eru það Sycamore tree-tónleikar 21. febrúar í Fríkirkjunni. Við verðum með átta manna band, strengjasveit og geggjaða spilara með í för. Við gefum út okkar annað lag af okkar annarri plötu. Fyrsta lagið, Fire, trompaði vinsældalista Rásar 2 lengi vel fyrir tveimur mánuðum og ætti að vera fólki í fersku minni. Við erum ekki síður spennt fyrir útgáfu næsta lags. Það lag pródúseraði og útsetti Rick Nowles, hægri hönd Lönu Del Ray, en hann vann okkar lög samhliða nýju plötunni hennar. Gaman að gá hvort fólk heyrir einhver líkindi þar á milli. En við erum svaka spennt fyrir þessu og vonumst til að sjá sem flesta 22. febrúar.“

Gunni Hilmarsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir skipa hljómsveitina Sycamore Tree.
Gunni Hilmarsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir skipa hljómsveitina Sycamore Tree. Ljósmynd/Saga Sig
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál