Ég hef aldrei verið með frægðardrauma

Ágústa Eva Erlendsdóttir dvelur í Ósló um þesssar mundir.
Ágústa Eva Erlendsdóttir dvelur í Ósló um þesssar mundir. Ljósmynd/Karl R. Lilliendahl

Ágústa Eva Erlendsdóttir er íslensk kvenhetja. Hún dvelur í Noregi þessa dagana ein með börnin sín tvö en hún leikur þriðja stærsta hlutverkið í nýrri HBO-seríu sem sýnd verður um allan heim. Í viðtali við Mörtu Maríu Jónasdóttur ræðir hún um þetta stóra tækifæri og hvernig hún þurfti að læra allt upp á nýtt eftir slys sem hún varð fyrir. 

Ágústa Eva er ólíkindatól. Hún veður í allt og lætur fátt stoppa sig, er mjúk og alls ekki átakafælin eins og svo margar konur. Nú er hún búin að landa þriðja stærsta hlutverkinu í nýrri HBO-seríu sem sýnd verður á öllum rásum stöðvarinnar um heim allan. Þetta er í fyrsta skipti sem HBO framleiðir sjónvarpsþátt á Norðurlandatungumáli. Þessi þáttaröð heitir Beforeigners en 300 leikkonur í Skandinavíu fóru í prufur fyrir hlutverkið en Ágústa Eva landaði því. Það var tvennt sem gerði það að verkum að hún fékk hlutverkið, fyrir utan leikhæfileika, hún kann norsku eftir að hafa búið í Noregi þegar hún var 11 ára og svo er hún slagsmálahundur eftir að hafa æft bardagaíþróttir í mörg ár. Hún segir að Noregur fari vel með þau.

„HBO skaffar mér íbúð og bíl og það fer vel um okkur. Börnin eru mestmegnis hérna í Noregi hjá mér og ég er með aðstoð sem passar þau meðan ég er í tökum. Svo eru margir Íslendingar sem búa hérna og við höfum bara svolítið dottið inn í þetta samfélag, sem er gott,“ segir hún.

Ágústa Eva hefur gert margt á sínum ferli. Hún komst í heimspressuna sem Sylvía Nótt, hefur leikið í bíómyndum, sýnt 200 sýningar fyrir fullu Borgarleikhúsi sem Lína Langsokkur og gefið út plötur svo eitthvað sé nefnt.

„Þetta er langstærsta hlutverk sem ég hef fengið á mínum ferli. Eftir langt og strangt prufuferli fékk ég hlutverkið og hófust tökur nú í haust. Ég verð því meira og minna í Noregi fram í byrjun næsta árs en svo munum við líka taka upp í Litháen,“ segir Ágústa Eva.

Í þáttunum er töluð norska eða einhvers konar afbrigði af fornnorsku sem líkist íslensku. Ágústa Eva segir að serían sé vísindaskáldsaga sem hefst þegar fólk frá víkingatímanum kemur upp úr sjónum og byrjar líf með nútímafólki.

„Þessi saga gerist í Noregi og er ádeila á flóttamannavandann og hvernig við eigum að taka tillit hvert til annars, vera ekki að spá í hver á hvaða land, vera með fordóma hvert í annars garð og þar fram eftir götunum. Við fylgjumst með því hvernig samfélagið tekur á móti þessu,“ segir Ágústa Eva.

Þegar Ágústa Eva er spurð að því hvernig dagarnir séu hjá henni segir hún að oftast séu þetta 10 tíma tökudagar. Tökur fara fram í Osló og á svæðinu þar í kring.

„Ég er svo heppin að fá að leika ótrúlega skemmtilegan karakter. Hún er mjög klikkuð og það eru mjög fyndnar uppákomur sem gerast. Ég fæ að leika mér mjög mikið og þetta gefur mér mikið. Handrit þáttanna er rosalega vel skrifað og ég skemmti mér konunglega að leika bara og þurfa ekki að pæla í því hvort ég sé í vitlausum búningi, of mikið eða of lítið máluð og að vinna eftir of lélegu handriti. Það eru miklir peningar í þessu og fólk hefur meiri tíma. Það er fært fólk á öllum póstum sem er gaman að kynnast,“ segir hún.

Hér er Ágústa Eva ásamt samstarfsfólki sínu í Beforeigners.
Hér er Ágústa Eva ásamt samstarfsfólki sínu í Beforeigners.

Ferlið að þessu hlutverki var ekki alveg beinn og breiður vegur. Hún frétti af þessum prufum og var ekkert æst í að fara í þær til að byrja með.

„Ég átti ekki von á því að fá þetta hlutverk. Ég var með pínulítið barn þegar mér var boðið í prufur í byrjun ársins og kannski ekki alveg stemmd í þetta. Svo var mér boðið aftur í prufur í vor og þá hafði ég betri tíma og yfirsýn og sé ekki eftir því. Ég gerði mér ekki grein fyrir hvað þetta er stórt,“ segir hún og bætir við:

„Þegar þú baðst mig um að koma í viðtal þá sá ég hvað þetta er rosalega stórt. Það er svo margt sem fer framhjá manni,“ segir Ágústa Eva og er að vísa í frétt sem birtist á mbl.is síðsumars um að hún hefði fengið hlutverkið. Á þeim tíma mátti hún ekki tjá sig um málið en lofaði viðtali um leið og HBO gæfi grænt ljós.

Ágústa Eva hefur hingað til ekki látið neitt stoppa sig.
Ágústa Eva hefur hingað til ekki látið neitt stoppa sig. mbl.is/Karl R. Lilliendahl
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál