Óskar Guðmunds brýtur blað í sögunni

Helga Jóna Sigurðardóttir, Óskar Guðmundsson, Kristín Helga Viggósdóttir og Ragnar …
Helga Jóna Sigurðardóttir, Óskar Guðmundsson, Kristín Helga Viggósdóttir og Ragnar Árnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Storytel mun í haust gefa út Dansarann, nýja bók eftir rithöfundinn Óskar Guðmundsson, undir merkjum Storytel Original. Bókaútgáfan Storytel Original gefur út frumsamdar sögur sem höfundar skrifa beint fyrir hljóðbókaformið og því er mikil áhersla lögð á gæði hljóðbókarinnar.

Dansarinn gerist árið 1982 og fjallar um tvítugan dreng sem elst upp hjá einstæðri móður sem hafði verið framúrskarandi góður ballettdansari, en brostnir draumar, höfnun og áföll keyra veröld hennar um koll. Hún elur son sinn upp af miklu harðræði í hálfgerðri einangrun og er bundinn þeirri þráhyggju að sonur hennar verði besti ballettdansari sem um getur. Heimur hans hverfist um móðurina og dansinn með skelfilegum afleiðingum.   

„Ég er fullur eftirvæntingar með þessi fyrstu skref mín í samstarfi með Storytel sem hafa verið frábær og langt umfram væntingar, enda finnur maður fyrir krafti og eldmóð hjá starfsfólkinu. Dansandi ferskir og spennandi tímar framundan!,“ segir Óskar sem mun starfa náið með Storytel á næstu mánuðum.

Óskar hefur áður gefið út þrjár skáldsögur. Fyrsta bókin hans, Hilma, hlaut Blóðdropann, íslensku glæpasagnaverðlaunin sem besta íslenska glæpasagan árið 2015. Hann er í fremstu röð íslenskra glæpasagnahöfunda og eru fyrri bækurnar hans þrjár allar aðgengilegar á Storytel.

„Það hefur verið frábært að vinna með Óskari að sögunni hans, enda kemur hann að borðinu svo fullur af hugmyndum og sköpunargleði. Við hlökkum mikið til áframhaldandi samstarfs og þess að geta svo miðlað bókinni hans til landsmanna í haust,” segir Elísabet Hafsteinsdóttir, útgáfustjóri Storytel.

Elísabet Hafsteinsdóttir, Stella Soffía Jóhannesdóttir, Óskar Guðmundsson og Stefán Hjörleifsson.
Elísabet Hafsteinsdóttir, Stella Soffía Jóhannesdóttir, Óskar Guðmundsson og Stefán Hjörleifsson.
mbl.is