Fíknin er út um allt

Rannveig Borg Sigurðardóttir gaf nýverið út bókina Fíkn en hún hefur fengið frábærar viðtökur og verið á toppi Storytel síðastliðnar tvær vikur.

„Fíkn er um hann Ella sem heillast af myndlistarkonunni Freyju sem er nýkomin til landsins eftir hjónaskilnað. Þeirra samband verður rússíbanareið. Mikil ást og mikil fíkn, við getum sagt sterk ástarsaga en líka sterk saga um áhrif fíknar á einstaklinga og alla í kringum þá,“ segir Rannveig Borg Sigurðardóttir.

„Mér finnst fíkn sérstaklega áhugaverð, mér finnst hún út um allt, mér finnst hún vera eitthvað sem mjög margir þekkja og kannast við. Öll þekkjum við einhvern sem hefur farið illa út úr fíknisjúkdómi,“ segir hún jafnframt. 

Skáldsagan fjallar um Ellert eða Ella eins og hann er kallaður í bókinni og hvernig líf hans umturnast þegar hann heillast af myndlistarkonunni Freyju Negroni, sem hefur nýlega snúið heim frá Ítalíu eftir erfiðan skilnað og reynir að skapa sér nafn í íslenskum listaheimi. Ellert hefur lifað áhyggjulitlu lífi og nýtur velgengni en verður heltekinn af þráhyggjukenndri ást. Hann reynir að fylgja Freyju eftir í tryllingslegri rússíbanareið þar sem fíkn er yfir og allt um kring – kynlífið verður æ villtara og vímugjafarnir eru aldrei langt undan.

Lygarnar og svikin vinda upp á sig og bjartar vonir bresta hver af annarri. Ekki er þó alltaf ljóst hver er gerandi og hver er þolandi, enda er fíkn flókið fyrirbæri sem á sér margar hliðar.

Hér fyrir neðan er hægt að lesa kafla úr bókinni: 

mbl.is