Guðrún er flutt heim eftir 12 ár erlendis

Guðrún Guðmundsdóttir er nýflutt til Íslands eftir að hafa verið …
Guðrún Guðmundsdóttir er nýflutt til Íslands eftir að hafa verið búsett í Amsterdam um árabil.

Guðrún Guðmundsdóttir flutti til Íslands um áramótin frá Amsterdam þar sem hún hafði búið í tólf ár. Hún á þrjú börn sem eru öll fædd í Hollandi og eiginmann og er ennþá að fikra sig áfram í að aðlagast menningunni aftur á Íslandi. Guðrún hefur unnið fyrir tískufyrirtæki lengi og starfar nú sem sérfræðingur í sjálfbærari hráefnum hjá Bestseller. 

„Ég er búin að vera að vinna í sjálfbærni í tísku og textíl síðastliðin tíu ár. Ég byrjaði hjá Tommy Hilfiger í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Amsterdam en síðastliðin tvö er hef ég verið að vinna hjá Bestseller.“

Hvernig er að vera komin til Íslands aftur?

Lífið í Amsterdam var bara mjög skemmtilegt og mjög ólíkt því að búa á Íslandi. Ætli ég sé ekki að upplifa öfugt menningarsjokk núna. Ég stend mig allavega oft að því að tuða um eitthvað sem öllum hér þykir bara sjálfsagt mál. Takturinn í Amsterdam er einhvernvegin allt annar og mannlífið auðvitað svolítið litríkara. Lífið í miðbænum er kannski það sem Íslendingar sem heimsækja Amsterdam upplifa og mörgum finnst kannski galið að búa þar með börn en borgin er svo miklu meira en bara miðbærinn og frekar barnvæn að mínu mati. Það sem ég sakna mest við að búa úti er hjólamenningin og frelsið sem því fylgir. Þar sem ég flutti hingað nýverið er ég ennþá að streitast á móti skutlmenningunni sem við öll þekkjum hér, en við sjáum hvað ég held það út lengi.“ 

Selected kápa úr efni sem er með endurunninni ull.
Selected kápa úr efni sem er með endurunninni ull.

Bestseller er danskt fjölskyldufyrirtæki sem á og rekur yfir 20 vörumerki. Meðal annars Only, Vero MOda, Name it, Selected, Vila, Object, Pieces og Y.A.S. svo eitthvað sé nefnt.

„Í starfi mínu er ég stöðugt að meta og uppfæra stefnuna sem við setjum í sambandi við sjálfbærni hráefna. Þar eð umhverfisáhrif, vottanir og rekjanleika hráefna sem notuð eru í framleiðslu á vörunum okkar með Fashion FWD sjálfbærni stefnu Bestseller í huga.“

Hún segir áhugavert að vinna á þessu sviði fyrir tískufyrirtæki og þá sér í lagi því viðmiðin eru alltaf að breytast. Sjálf er hún ekki upptekin af nýjustu tísku, þar sem megin fókus hennar er á framleiðsluferlið og umhverfismálin. 

„Við erum að vinna að metnaðarfullu markmiðið sem var sett fram til næstu fimm ára í umhverfismálum og við tökum eftir því að viðskiptavinir okkar eru spenntir fyrir þessu og stöðugt að leita að upplýsingum um vörurnar okkar og rekjanleika. Það er áhugavert að skoða áhrif þess að nota sjálfbærari hráefni í framleiðslu, lífræn efni eða endurunnin í stað hefðbundinna hráefni af sömu tegund. Ég aðstoða svo vörumerkin okkar í að segja þessa sögu þannig að hún skili sér til neytenda okkar.“

Það má segja að Guðrún vinni þvert á fyrirtækið og svo tilheyrir hún allskonar hópum og hagsmunaaðilum. 

„Minn fókus er á hráefni, að skilja og greina umhverfisáhrif tengd þeim hráefnum sem við notum í framleiðslunni. Ég er líka ábyrg fyrir hráefna og dýravelferðarstefnu Bestseller og er í forsvari fyrir fyrirtækið í hinum ýmsum samstarfshópum fag og hagsmunaaðila tengdu þessu.“

Hún segir aldrei lognmollu í vinnunni enda stöðugar nýjar áskoranir að horfast í augu við í vinnunni. 

„Ég vinn með hæfileikaríku og metnaðarfullu fólki úr öllum áttum og saman myndum við teymi sem vinnur þvert á allar stoðdeildir og með öllum vörumerkjum Bestseller. Ég myndi segja að það sé gott að vera með góðan skammt af bjartsýni því oft eru áskorirnar yfirþyrmandi en að sama skapi er gefandi að sjá framfarir og þegar maður veitir öðrum innblástur.“

Kjóll frá Object sem er úr pólýester sem er endurunninn.
Kjóll frá Object sem er úr pólýester sem er endurunninn.

Stóru fyrirtækin í tískuiðnaðinum hafa verið kölluð til ábyrgðar og þykir henni ljúft og skylt að taka þátt í því. 

„Við erum meðvituð um að sem stórfyrirtæki í tískuiðnaðinum höfum við tækifæri til að skapa skilyrði fyrir þýðingarmiklar framfarir. Við höfum heilstæða nálgun og vinnum að innleiðingu sjálfbærnin í fyrirtækinu öllu. Bestseller rekur öflugt prógramm fyrir framleiðendur sem tryggir náið samstarf, eftirfylgni og úrbætur þegar þess þarf. Fyrirtækið tekur einnig virkan þátt í þverfaglegu samstarfi bæði við þjóðir og stjórnvöld í þeim tilgangi að tala fyrir kerfisbundnum breytingum í iðnaðinum.“

Guðrún segir komna þónokkuð mikla reynslu af samvinnu í tískuiðnaðinum þegar kemur að málefnum sem tengjast sjálfbærni og samfélagsábyrgð.

„Samvinna er einmitt lykillinn að framförum. Á sama tíma má ekki gleyma að við búum í tengdum heimi þar sem áskoranirnar eru margþættar svo lausnirnar þurfa að vera heildstæðar. Þegar litið er til Heimsmarkmiðanna má sjá hvað það er í raun margt sem fyrirtæki þurfa að innleiða til að vinna að framgangi markmiðanna. Það eru óteljandi samstarfshópar þar sem iðnaðurinn kemur saman til að vinna að umbreytingum. Þar má nefna hvernig á að brúa bilið í nýsköpun sem þarf til að stuðla að framförum tengdum hringrásarhagkerfinu, prófanir á tæknilausnum sem stuðla að rekjanleika og gagnsæi og sem dæmi hvernig iðnaðurinn getur búið sig undir nýjar reglugerðir í þeim löndum og mörkuðum þar sem starfsemin fer fram.“

Alklæðnaður frá Selected úr umhverfisvænum efnum. Úlpan er úr 100% …
Alklæðnaður frá Selected úr umhverfisvænum efnum. Úlpan er úr 100% endurunnu pólýester.

Að hverju geta kaupendur ykkar gengið?

„Viðskiptavinir okkar geta gengið að góðu úrvali af vörum sem framleiddar eru úr sjálfbærari kosti þegar að hráefnum kemur og er það oftast tekið fram á merkimiðunum. En svo má auðvitað ekki einblína á miðann því Bestseller er með heilstæða stefnu og nálgun á sjálfbærni og samfélagsábyrgð.“

Hver er uppáhaldsflíkin þín í fataskápnum?

„Ég held að það hljóti að vera „Yak“ ullarpeysan sem ég keypti mér í fyrra. Ég notaði hana í allt sumar í útilegunum og mun örugglega ekki fara úr henni í vetur.“

Hvað geta neytendur gert til að vera hluti af lausninni?

„Sem neytandi getur verið flókið að vita hverju á að taka mark á. Upplýsingar um sjálfbærni geta verið yfirþyrmandi og erfitt að sannreyna í fljótu bragði. Fyrir þá sem vilja minnka umhverfisáhrif tengdum fatakaupum sínum er þrennt sem ég myndi byrja á að gera. Í fyrsta lagi að kynna sér það vörumerki sem þú ert að versla þér og ganga um skugga að þar sé heildstæð stefna og nálgun á sjálfbærni. Þá er einnig góður mælikvarði hvort fyrirtækið gefi út skýrslu um sjálfbærni og gagnsæi sé á hvernig miðar að ná settum markmiðum. Þannig er hægt að meta hvort fyrirtækið hafi sett sér markmið við að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið og samfélög.

Í öðru lagi að leitast við að velja sér fatnað sem er framleiddur úr hráefnum eða með framleiðsluháttum sem draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið. Sem dæmi með lífrænum eða endurunnum hráefnum og þá frá vörumerkjum sem þú hefur kynnt þér og þú treystir. 

Í þriðja lagi að að nota fatnað sem lengst. Ég hvet alla til að gera við fatnað og gefa hann áfram. Það er ágætis regla en þegar engin not eru fyrir flíkinni ætti auðvitað koma henni fyrir í endurvinnslugámum fyrir textíl.

Meginatriðið er að það er enginn tilgangur að kaupa endalaust af fatnaði með sjálfbærum hráefnum ef þeim er hent eftir notkun í nokkur skipti. Því lengur sem flíkin er notuð því betra fyrir umhverfið.“

Það skiptir máli að vita hvaðan efni koma og hvernig …
Það skiptir máli að vita hvaðan efni koma og hvernig staðið er að framleiðslu áður en fatnaður er keyptur að mati Guðrúnar.
mbl.is