Guðjón æfir með Torpedo Moskva

Guðjón Baldvinsson í leik með KR.
Guðjón Baldvinsson í leik með KR. mbl.is/Golli

Knattspyrnumaðurinn Guðjón Baldvinsson, sem er á mála hjá GAIS í Svíþjóð en var í láni hjá KR-ingum á síðasta tímabili, er þessa dagana til reynslu hjá rússneska félaginu Torpedo Moskva. Þetta kemur fram á Fótbolta.net í dag.

Guðjón, sem er 24 ára gamall sóknarmaður, er að leita fyrir sér að liði en ljóst er að hann verður ekki áfram í herbúðum GAIS. Hann skoraði 10 mörk í 13 leikjum með KR í úrvalsdeildinni á síðasta ári og lék með Vesturbæingum í Reykjavíkurmótinu í síðasta mánuði.

Torpedo Moskva er gamalt stórveldi frá tímum Sovétríkjanna og varð meistari þar árin 1960, 1965 og 1976. Félagið féll úr rússnesku úrvalsdeildinni 2006 og var síðan neitað um keppnisleyfi sem atvinnuliði í ársbyrjun 2009. Þá hóf Torpedo keppni í áhugamannadeild, en hefur síðan á  tveimur árum unnið sig uppí 1. deildina, næstefstu deildina í Rússlandi, og spilar þar á komandi keppnisstímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert