Þorvaldur: Vandamál að gefa fjögur mörk

Þorvaldur Örlygsson
Þorvaldur Örlygsson Ómar Óskarsson

„Það er virkilega svekkjandi að fara héðan með stöðuna 4:2. Við vorum að fá góð færi en þegar liðið gefur fjögur mörk, og það liði sem ekki var að skapa fleiri færi en það, þá er það vandamál,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, eftir tapið gegn Stjörnunni í kvöld.

Þorvaldur sagði það eðlilega svekkjandi að tapa, sérstaklega vegna þess að þegar liðið jafnaði 2:2 þótti honum sem leikmenn sínir væru komnir inn í leikinn og líklegir til afreka. „Svo gáfum við þeim mörk klaufalega. Í þriðja markinu [þegar Garðar Jóhannsson skoraði með skalla eftir hornspyrnu] var ferlega léleg dekkning og fjórða markið [Ellert Hreinsson skoraði í autt markið eftir að markvörður Fram var lagstur í jörðina], ég veit ekki hvernig hann komst upp með að fara í gegnum svona marga.“

Sköpuðu nóg af færum

Hins vegar sagði Þorvaldur jákvætt að liðið væri að skapa færi og að það hafi fengið nóg af færum til að komast aftur inn í leikinn að nýju. „En þetta datt ekki fyrir þá sem frammi voru. Ef við hefðum haft aðeins meiri gæði á síðustu mínútunum hefðum við getað jafnað.“

Athygli vakti að Þorvaldur gerði engar skiptingar í leiknum. Hann skýrði það þannig, að hann taldi þá leikmenn sem voru inni á vellinum líklega til að klára sóknirnar. 

Reyndar skoruðu Framarar tvö mörk á loka mínútunum en bæði voru dæmd af vegna rangstöðu. „Ég sá þetta ekki nægilega vel til að dæma en ég tel að þetta hafi verið lögleg mörk,“ sagði Þorvaldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina