Magnaður íslenskur sigur á Frökkum

Íslenska U21 árs landsliðið í knattspyrnu er með fullt hús stiga eftir tvo leiki í undankeppni Evrópumóts U21-árs landsliða eftir gríðarlega sterkan sigur á ógnarsterku liði Frakklands, 3:2, þegar þjóðirnar mættust á Kópavogsvelli í dag.

Frakkar mættu gríðarlega ákveðnir til leiks og pressuðu stíft fyrstu fimm mínúturnar eða svo, áður en Ísland fékk sína fyrstu sókn. Og það var nú meiri sóknin. Ævar Ingi Jóhannesson fékk þá góða stungusendingu innfyrir vörnina, hann kom á ferðinni og kom tá í boltann áður en Paul Nardi í marki Frakklands kom askvaðandi.

Sá franski missti af boltanum en felldi hins vegar Ævar, fékk að líta rautt spjald og vítaspyrna dæmd. Frakkar tóku kantmann af velli fyrir varamarkmanninn Mouez Hassen, sem varði vítaspyrnu Olivers Sigurjónssonar en Oliver gekk hart á eftir frákastinu og skoraði. 1:0 fyrir Ísland eftir tíu mínútur.

Frakkar héldu áfram að ráða ferðinni eftir markið en Ísland fékk hættulegar skyndisóknir. Á 39. mínútu skilaði pressa Frakka árangri, þegar fyrirliðinn Aymeric Laporte skoraði með skalla eftir sendingu frá vinstri kanti. 1:1 í hálfleik.

Eftir aðeins þriggja mínútna leik í síðari hálfleik dró til tíðinda. Böðvar Böðvarsson tók þá hornspyrnu frá hægri, boltinn barst á fjærstöngina á Aron Elís Þrándarson sem skallaði hann áfram inn í teiginn. Þar var Hjörtur Hermannsson mættur og skallaði boltann í netið, staðan orðin 2:1 fyrir Ísland.

Eins og eftir fyrsta markið tóku Frakkar við keflinu og pressuðu mun meira en íslenska liðið. Pirringur þeirra frönsku óx jafnt og þétt þegar leið á í leit að jöfnunarmarkinu, en strákarnir héldu góðu skipulagi. Fimm mínútum fyrir leikslok kom svo reiðarslag þeirra.

Íslensku strákarnir fóru þá í eina af sínum hættulegu skyndisóknum, Ævar Ingi sendi fyrir markið þar sem Höskuldur Gunnlaugsson var tekinn niður innan teigs og önnur vítaspyrna dæmd. Aftur fór Oliver á punktinn og gekk öruggur að boltanum og skoraði nú af öryggi úr spyrnunni. 3:1 fyrir Ísland og tíminn sannarlega að fljúga frá tíu Frökkum.

Á lokamínútu venjulegs leiktíma náði varamaðurinn Grejohn Kyei að laga stöðuna fyrir Frakka með skoti úr teignum, og uppbótartíminn var sannarlega spennuþrunginn. Frakkar lögðu allt í sölurnar en strákarnir héldu velli og uppskáru gríðarsterkan 3:2 sigur.

Ísland er með fullt hús stiga eftir tvo leiki, en liðið sigraði Makedóníu í fyrsta leik riðlakeppninnar hér heima í júní, 3:0. Þetta var hins vegar fyrsti leikur Frakka í riðlinum. Ísland mætir Norður-Írlandi á þriðjudag.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en viðtöl koma inn á vefinn síðar í dag.

Ísland U21 3:2 Frakkland U21 opna loka
90. mín. Grejohn Kyei (Frakkland U21) skorar 3:2 - Kingsley með sendingu fyrir, Kyei tók á móti boltanum og náði að snúa og skila boltanum í netið. Nú verður þetta spennandi!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert