Blikar tóku toppsætið af Val

Fanndís Friðriksdóttir skoraði seinna mark Breiðabliks í kvöld.
Fanndís Friðriksdóttir skoraði seinna mark Breiðabliks í kvöld. mbl.is/Golli

Breiðablik vann 2:1-sigur á Val í A-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu í Egilshöll í kvöld.

Samkvæmt frétt Fótbolta.net kom Berglind Björg Þorvaldsdóttir Blikum yfir í fyrri hálfleik og Fanndís Friðriksdóttir bætti við marki um miðjan seinni hálfleik. Þriðja landsliðskonan, Margrét Lára Viðarsdóttir, minnkaði muninn fyrir Val undir lokin.

Valur hafði unnið alla þrjá leiki sína fyrir leikinn í kvöld en missti Blika upp fyrir sig í toppsætið. Blikar eru með 10 stig en Valur 9. ÍBV er svo í 3. sæti með 6 stig og Íslandsmeistarar Stjörnunnar hafa 5 stig í 4. sæti. Þór/KA er með 4 stig en FH ekkert.

Breiðablik mætir FH í lokaleik sínum og getur þá tryggt sér efsta sætið en Valur mætir Stjörnunni og ÍBV mætir Þór/KA. Liðin í 1. og 4. sæti mætast svo í undanúrslitum, sem og liðin í 2. og 3. sæti.

mbl.is