Fyrirliðinn er í fararbroddi

Aron Einar Gunnarsson
Aron Einar Gunnarsson mbl.is/Golli

Aron Einar Gunnarsson fyrirliði karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu, varð í gærkvöld yngsti landsliðsmaðurinn í karlaflokki til að spila 70 A-landsleiki.

Þessum áfanga náði hann þegar Ísland sigraði Írland, 1:0, í vináttulandsleiknum í Dublin en Aron var í gær nákvæmlega 27 ára og 340 daga gamall.

Aron sló þar með met Rúnars Kristinssonar, leikjahæsta leikmanns landsliðsins frá upphafi og núverandi þjálfara Lokeren í Belgíu, sem var 29 ára og 39 daga gamall, þegar hann spilaði sjötugasta landsleik sinn árið 1998, en það var sigurleikur gegn Rússlandi í undankeppni Evrópumótsins. Aron var því 429 dögum yngri en Rúnar var þegar hann spilaði 70. landsleikinn.

Þeir Aron og Rúnar eru einu leikmennirnir sem hafa náð þessum áfanga fyrir þrítugt en samtals hafa nú þrettán landsliðsmenn Íslands náð að spila sjötíu leiki. Atli Eðvaldsson varð fyrstur til þess árið 1991 þegar hann lék sinn sjötugasta og síðasta landsleik en það var lengi vel stærsti áfangi íslenskra landsliðsmanna að ná 70 leikjum. Landsleikjamet Marteins Geirssonar sem var 67 leikir stóð í mörg ár. Þeir Guðni Bergsson og Ólafur Þórðarson náðu Atla í sama leiknum haustið 1996 og settu síðan í sameiningu nýtt landsleikjamet í næsta leik á eftir.

Sjá allt um landsleikinn gegn Írum í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag og þar er fjallað um þá leikmenn sem hafa náð að spila 70 landsleiki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert