Birkir klár fyrir Króatana – hæstánægður með Bruce

Birkir Bjarnason er að koma til baka eftir meiðsli.
Birkir Bjarnason er að koma til baka eftir meiðsli. AFP

Landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason, leikmaður Aston Villa á Englandi, verður klár í slaginn fyrir landsleik Íslands og Króatíu 11. júní næstkomandi í undankeppni HM í knattspyrnu en hann jafnar sig þessa dagana á meiðslum sem hann varð fyrir í hné fyrir tæpum átta vikum.

Birkir skaddaðist á liðbandi í hné í leik Aston Villa og Rotherdam 4. mars síðastliðinn og hefur ekki keppt síðan þá. Hann er byrjaður að æfa vel að eigin sögn en þó ekki með liðinu og verður ekki í leikmannahópi Aston Villa þegar liðið mætir toppliði Brighton & Hove Albion í lokaleik tímabilsins hjá liðinu í ensku B-deildinni. Hann segir hins vegar stöðuna á sér góða og gæti ef þannig bæri undir spilað leikinn á sunnudaginn.

„Staðan er mjög fín. Ég er byrjaður að æfa mjög vel en ekki byrjaður að æfa með liðinu enn þá. Ég hefði getað gert það en þeir vilja ekki ýta of mikið á mig. Landsleikurinn er ekki fyrr en í júní og því enginn tilgangur með því,“ sagði Birkir við mbl.is.

Birkir verður eins og fyrr segir ekki með liðinu á sunnudaginn en segir þó að ef staðan í deildinni væri önnur og meira væri undir þá myndi hann sennilega getað spilað en Aston Villa er í 12. sæti deildarinnar og á ekki möguleika á að komast upp í úrvalsdeildina.

„Ég gæti það sennilega en maður getur alltaf fengið eitthvert högg sem er ekki gott og þá gæti þetta orðið lengra,“ sagði Birkir.

Aðspurður hvort hann verði þá ekki orðinn klár í slaginn fyrir Króatíuleikinn mikilvæga þar sem Ísland getur með sigri á Laugardalsvelli jafnað Króatana að stigum svaraði Birkir játandi.

Birkir Bjarnason í leik með Aston Villa.
Birkir Bjarnason í leik með Aston Villa. Ljósmynd/Twitter

„Já, já, það er alla vega planið,“ sagði Birkir við mbl.is en hann hefur einnig verið í sambandi við Heimi Hallgrímsson varðandi stöðuna á sér. Birkir missti af landsleiknum gegn Kósóvó í mars, sem var fyrsti landsleikurinn sem kappinn missti af í sex ár.

Birkir er ánægður með sín vistaskipti frá Englandi en hann gekk í raðir Aston Villa frá Basel í Sviss í janúar og segir mjög gott að vera hjá Villa.

„Æfingasvæðið og allt þetta er alveg frábært. Bærinn er fínn og ég er búinn að koma mér mjög vel fyrir. Mér líður bara mjög vel,“ sagði Birkir sem líkar vel undir stjórn Steve Bruce.

„Já, mjög vel. Hann er frábær maður og frábær þjálfari. Ég hlakka bara til að fá að byrja almennilega á næsta tímabili. Frá byrjun tímabilsins,“ sagði Birkir en hann segir væntingarnar skýrar fyrir næsta tímabil.

„Sama og fyrir síðasta tímabil. Beint upp. Við erum með nógu góðan leikmannahóp til þess og nógu góðan þjálfara. Ef við gerum okkar þá eigum við að gera það. Þetta er einn af fimm, sex stærstu klúbbunum á Englandi. Þó að það hafi gengið illa síðustu árin þá er klúbburinn enn þá stór sögulega séð,“ sagði Birkir.

Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason. Ljósmynd/www.avfc.co.uk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert