Ömurlega gamla góða klisjan

Arnþór Ari Atlason skoraði tvö mörk í kvöld.
Arnþór Ari Atlason skoraði tvö mörk í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekki mikið búið að breytast, hver og einn er búinn að taka sig saman í andlitinu og stíga upp," sagði Arnþór Ari Atlason, leikmaður Breiðabliks eftir 3:2 sigur á ÍA í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag, er hann var spurður um hvað hafði breyst hjá Blikum á síðustu vikum. Eftir skelfilega byrjun á mótinu er liðið nú búið að vinna þrjá leiki í röð. Arnþór skoraði tvö mörk í leiknum. 

„Milos kemur inn með sínar áherslur sem eru góðar og hjálpa. Fyrst og fremst erum við samt fókuseraðir. Ég veit ekki hversu mörg færi við fengum til að klára leikinn, en í staðinn fáum við á okkur tvö mörk og vinnum bara með einu. Þetta var smá stress í lokin sem var leiðinlegt. Gísli var sérstaklega að leggja upp fullt af dauðafærum, það var leiðinlegt að hann fékk ekki fullt af stoðsendingum."

„Við erum með frábært lið, hvort sem það er vörnin eða framar. Við erum byrjaðir að tengja vel fram á við og erum hættulegir. Við erum með marga hættulega leikmenn sem geta valdið usla."

Eftir sigurinn eru Blikar aðeins fjórum stigum frá toppliðunum. 

„Þetta er ömurlega gamla góða klisjan, sem er leiðinleg en það er bara næsti leikur. Við erum búnir að vinna þrjá í röð núna og það er gaman. Þetta er mjög jöfn deild og ef við hugsum um sjálfa okkur getum við verið sáttir í lok sumar," sagði Arnþór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert