Fjölnir úr fallsæti eftir frábæran sigur

Ægir Jarl Jónsson og Andri Rúnar Bjarnason í baráttunni um ...
Ægir Jarl Jónsson og Andri Rúnar Bjarnason í baráttunni um boltann á Ekstra-vellinum í kvöld. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Fjölnismenn fengu Grindavík í heimsókn á Extra-vellinum í Grafarvoginum í 11. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Þetta var fyrsti leikur Fjölnis í 23 daga en liðið hóf daginn á botni deildarinnar á meðan Grindvíkingar eygðu möguleikann á að komast á toppinn með sigri en heimamenn voru betri frá fyrstu mínútu og unnu sannfærandi 4:0 sigur.

Það var ekki að sjá í fyrri hálfleik að það væri lið Fjölnis sem væri öfugu megin á töflunni. Heimamenn byrjuðu leikinn af þvílíkum krafti og voru komnir yfir eftir aðeins tvær mínútur. Þar var á ferðinni hinn sænski Linus Olsson sem er nýkominn til félagsins og var að spila sinn fyrsta leik fyrir Fjölni í kvöld en hann skoraði framhjá Kristijan Jajalo í marki Grindavíkur af stuttu færi.

Áfram héldu Fjölnismenn að fara illa með gestina og á 32. mínútu tvöfaldaði Gunnar Már Guðmundsson forystuna með svakalegu marki. Ægir Jarl Jónasson skallaði boltann aftur fyrir sig og Gunnar kom á harðaspretti og þrumaði boltanum glæsilega í markið.

Í seinni hálfleik var svo einfaldlega meira af því sama. Fjölnismenn skoruðu þriðja mark sitt strax á 48. mínútu en það gerði Þórir Guðjónsson eftir hornspyrnu.

Á 79. mínútu fengu Grindvíkingar tækifæri til að minnka muninn þegar Andri Rúnar Bjarnason var felldur inn í vítateig og vítaspyrna dæmd. Hann steig sjálfur á punktinn en Þórður Ingason varði glæsilega frá honum.

Það gekk allt upp hjá Fjölnismönnum í kvöld sem voru frábærir og með sigrinum lyfta þeir sér upp úr botnsætinu og sitja nú í því áttunda með 12 stig. Grindvíkingar eru hins vegar áfram í öðru sæti, þremur stigum frá toppliði Vals.

Fjölnir 4:0 Grindavík opna loka
90. mín. Leik lokið Glæsilegur 4:0 sigur Fjölnis sem lyftir sér upp úr fallsætinu!
mbl.is