Vorum hreinlega í krummafæti

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindvíkinga.
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindvíkinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við hittum á Fjölni í stuði og að sama skapi vorum við illa stilltir, við vorum hreinlega í krummafæti í dag,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, eftir svekkjandi 4:0 tap gegn Fjölni í 11. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

„Eins fáránlega og það hljómar þá var ég ánægður með margt í sóknarleik okkar, við vorum að reyna réttu hlutina en svo er síðasta skot eða sending að klikka. Í fótbolta er það stundum bara þannig, Gunnar [Már Guðmundsson] setur eitt af 30 metrum viðstöðulaust á lofti, Sam Hewson á svipað skot hjá okkur og það endar í stönginni.“

Á venjulegum degi hefði Andri Rúnar Bjarnason jafnvel skorað tvö í dag. Hann var að koma sér í færi og misnotaði vítaspyrnu.

„Á venjulegum degi já, hann var að skapa sér mikið og við verðum að rífa það jákvæða út úr þessu en þetta var bara ekki okkar dagur.“

Grindavík var 2:0 undir í hálfleik og Óli gerði breytingar í hléinu til að freista þess að komast inn í leikinn en í staðinn skoraði Fjölnir þriðja mark sitt strax á 48. mínútu, var það rothögg?

„Við gerðum áherslubreytingar í hálfleik, tökum áhættu og opnum okkur töluvert til að reyna sækja mark en það heppnaðist ekki, ég tek það alfarið á mig.“

Er þetta slakasti leikur Grindavíkur undir þinni stjórn?

„Já ég held ég verði að segja að þetta hafi verið slakasti leikur okkur síðan í nóvember þegar við byrjuðum. En ég sagði við strákana að við verðum að taka svona leik og ýta honum frá okkur, þarna fóru þrjú stig og við verðum bara að læra af þessu. Þetta er eins og Gunnar Nelson, sleginn í rot og hvað gerir hann? Stendur upp og reynir að læra af þessu, það er það sem við verðum að gera og við eigum verðugt verkefni næsta sunnudag.“

Félagaskiptaglugginn er nú opinn, ætlar Grindavík að styrkja hópinn?

„Það er erfitt, markaðurinn er erfiður. Maður vill helst ekki fara erlendis að sækja einhverja leikmenn sem eru kannski ekki í standi til að koma og aðlagast, maður veit ekki alveg hvað maður fær. En þetta verður að koma í ljós.“

Björn Berg Bryde fór af velli í fyrri hálfleik vegna meiðsla, er það alvarlegt?

„Ég veit það ekki alveg, yfirleitt þegar það tengist honum þá getur það verið alvarlegt.“

mbl.is