Mikael í landsliðum Íslands og Danmerkur

Eyjólfur Sverrisson er þjálfari 21 árs landsliðsins.
Eyjólfur Sverrisson er þjálfari 21 árs landsliðsins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Mikael Anderson, leikmaður danska úrvalsdeildarfélagsins Midtjylland, hefur verið valinn í 21-árs landsliðshóp Íslands í knattspyrnu fyrir fyrsta leik liðsins í undankeppni EM 2019 sem er gegn Albaníu á Víkingsvellinum 4. september.

Mikael, sem er 19 ára gamall, hefur leikið með U17 ára landsliði Íslands og Danir hafa líka augastað á honum því hann á að baki tvo leiki fyrir U19 ára landslið Danmerkur. Hann þarf ekki að velja á milli fyrr en kemur að A-landsliðinu.

Mikael kom inn í leikmannahóp Midtjylland á síðasta tímabili og kom við sögu í tveimur leikjum liðsins í úrvalsdeildinni. Hann hefur ekki verið í hópnum til þessa í fyrstu umferðum deildarinnar á nýhöfnu tímabili.

Mikael er einn þriggja nýliða í hópnum en hinir eru markverðirnir Aron Snær Friðriksson úr Fylki og Hlynur Örn Hlöðversson úr Fram. Hinir sem Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari valdi fyrir þetta verkefni hafa flestir leikið frá einum upp í fjóra vináttuleiki á þessu ári.

Þeir einu í hópnum sem höfðu áður komið við sögu eru Albert Guðmundsson, leikmaður PSV Eindhoven í Hollandi, en hann á 7 landsleiki að baki í þessum aldursflokki, Samúel Kári Friðjónsson, leikmaður Vålerenga í Noregi, sem hefur spilað 3 landsleiki og hafði misst úr heilt ár vegna meiðsla, og Óttar Magnús Karlsson, leikmaður Molde í Noregi, sem á 3 leiki að baki.

Þess má geta að markverðirnir þrír sem eru í hópum eru allir aðalmarkverðir sinna liða í 1. deild.

Hópurinn er þannig skipaður:

Markverðir:
Sindri Kristinn Ólafsson, Keflavík
Aron Snær Friðriksson, Fylki
Hlynur Örn Hlöðversson, Fram

Aðrir leikmenn:
Albert Guðmundsson, PSV
Alfons Sampsted, Norrköping
Arnór Gauti Ragnarsson, ÍBV
Axel Óskar Andrésson, Reading
Ásgeir Sigurgeirsson, KA
Hans Viktor Guðmundsson, Fjölni
Júlíus Magnússon, Heerenveen
Orri Sveinn Stefánsson, Fylki
Viktor Karl Einarsson, AZ Alkmaar
Grétar Snær Gunnarsson, HK
Jón Dagur Þorsteinsson, Fulham
Samúel Kári Friðjónsson, Vålerenga
Tryggvi Hrafn Haraldsson, Halmstad
Óttar Magnús Karlsson, Molde
Aron Freyr Róbertsson, Grindavík
Felix Örn Friðriksson, ÍBV
Mikael Anderson, Midtjylland

mbl.is