„Stend eftir sem eitthvert spurningarmerki“

Hörður Björgvin Magnússon
Hörður Björgvin Magnússon mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

„Það er skrýtið að þjálfarinn hafi viljað halda mér en spili mér ekki. Hann tekur sínar ákvarðanir og auðvitað virði ég þær en persónulega tel ég mig eiga heima í byrjunarliðinu,“ segir Hörður Björgvin Magnússon, sem er í erfiðri stöðu hjá enska B-deildarfélaginu Bristol City en blómstrar í landsleikjum þess á milli.

Hörður hefur leikið þrjá síðustu leiki Íslands í undankeppni HM, þar á meðal í sigrunum mikilvægu á Króatíu í júní og gegn Úkraínu í síðustu viku. Hjá Bristol hefur hann hins vegar aðeins spilað tvo deildarleiki í byrjunarliði frá síðustu áramótum, og ekki eina einustu mínútu í fyrstu sjö umferðum ensku B-deildarinnar á þessu tímabili.

Á lokadegi félagaskiptagluggans um síðustu mánaðamót var um tíma útlit fyrir að Hörður kæmist úr „prísundinni“, ef svo má segja, og að láni til Rostov í rússnesku úrvalsdeildinni, þar sem Sverrir Ingi Ingason leikur. Af því varð hins vegar ekki.

„Þetta er náttúrlega mjög skrýtin staða sem ég er í. Þjálfarinn vildi halda mér og gerði það í félagaskiptaglugganum, en hann hefur fjóra aðra miðverði til að tefla fram. Hann kýs að nota aðra menn þessa stundina en lofar engum föstu sæti, nema fyrirliðanum (innsk.: ástralska miðverðinum Bailey Wright). Ég stend eftir sem eitthvert spurningarmerki og veit ekkert hvað er í gangi. Það hefur ekkert gerst á milli okkar. Það er bara mjög skrýtið hvernig þetta hefur þróast,“ segir Hörður.

„Ég spilaði nokkuð mikið fyrri hluta tímabilsins síðasta vetur en þetta er fljótt að breytast og maður þarf bara að bíða eftir tækifærinu og nýta það. Það er samt ósköp langt síðan ég fékk tækifæri. Ég spilaði þó síðasta bikarleik, og spila vonandi bikarleikinn í næstu viku,“ segir Hörður.

Sjá allt viðtalið við Hörð Björgvin í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag