Stjarnan þarf að sækja í Rússlandi

Kim Dolstra með boltann í Garðabænum í kvöld.
Kim Dolstra með boltann í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjarnan er í nokkuð erfiðri stöðu eftir fyrri viðureign sína gegn rússneska meistaraliðinu Rossijanka í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu. Liðin skildu jöfn í Garðabænum í kvöld, 1:1, sem þýðir að Stjarnan þarf að sækja í það minnsta eitt mark í Rússlandi eftir viku.

Stjarnan náði frumkvæðinu snemma leiks á meðan rússneska liðið treysti á varnarleikinn í leikkerfinu 5-4-1. Erfiðlega gekk fyrir Stjörnuna að brjóta andstæðinginn á bak aftur en það dró til tíðinda á 22. mínútu þegar Stjarnan fékk vítaspyrnu.

Guðmunda Brynja Óladóttir fékk þá stungusendingu inn í teig, markvörður Rússa kom út á móti og braut greinilega á henni. Katrín Ásbjörnsdóttir fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi, staðan 1:0. Stjarnan sótti áfram eftir þetta og meðal annars var mark dæmt af vegna rangstöðu, en þegar flautað var til hálfleiks munaði einu marki á liðunum.

Rússneska liðið mætti ákveðnara til leiks eftir hlé og uppskar jöfnunarmark strax í upphafi síðari hálfleiks. Eftir aukaspyrnu af löngu færi sem fór í þverslá fylgdi varnarmaðurinn Liudmila Shadrina boltanum eftir í netið. Staðan 1:1 og rússneska liðið komið með dýrmætt útivallarmark í einvíginu.

Rússarnir sýndu allt aðra takta en fyrir hlé og komu boltanum aftur í markið þegar hálftími var eftir, en það mark var dæmt af vegna rangstöðu. Það sem eftir lifði leiks var mikið jafnræði með liðunum en mörkin urðu ekki fleiri þrátt fyrir að Stjarnan hafi átt tilraun í stöng í uppbótartíma. Lokatölur 1:1 og Stjarnan þarf því að sækja eftir viku þar sem rússneska liðið skoraði mikilvægt útivallarmark.

Síðari leikurinn fer fram í Rússlandi á miðvikudaginn kemur, en fylgst var með viðureign kvöldsins í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Stjarnan 1:1 Rossijanka opna loka
90. mín. Alena Guseva (Rossijanka) fær gult spjald +5. Fyrir að tefja.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert