FH-liðið ekki eins beitt

Jón Rúnar Halldórsson formaður knattspyrnudeildar FH.
Jón Rúnar Halldórsson formaður knattspyrnudeildar FH. Ljósmynd/fh.is

„Við þurfum að fara í ákveðna naflaskoðun. Ákveðna endurnýjun. Hún getur falist í jafn drastískum aðgerðum og þessari. Sem og öðrum aðgerðum með,“ sagði Jón Rúnar Halldórsson formaður knattspyrnudeildar FH um uppsögnina á Heimi Guðjónssyni sem þjálfara karlaliðs þess.

Undir stjórn Heimis frá árinu 2007 hefur liðið fimm sinnum orðið Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari.

„FH-liðið hefur ekki verið eins beitt og það hefur verið. Hefði einhver ein ástæða verið fyrir því hefði maður bara sett plástur á það,” sagði Jón Rúnar og hélt áfram.

„Ég er ekkert að segja það að með því að gera eitthvað svona séum við sloppnir fyrir horn og allt í „gúddí“. Það er ekki þannig,“ sagði Jón Rúnar við mbl.is.

Hann tók þó ekkert af Heimi og sagði árangurinn á hans tíma engan líkan.

Heimir Guðjónsson
Heimir Guðjónsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekki neitt til á Íslandi sem er til jafns við þetta. Þá er ég að tala um Heimi og síðan FH sem félag; knattspyrnudeildina sem félag. Sem betur fer hefur félagið verið jafn lánsamt að hafa haft menn eins og Heimi og marga aðra í þjónustu sinni,“ sagði Jón Rúnar.

Jón Rúnar vildi ekki mikið tala um möguleikann á því að FH-ingurinn Ólafur Helgi Kristjánsson væri á leið á ný í Hafnarfjörðinn en Ólafur tók tók frumkvæðið í því að hætta að þjálfa danska úrvalsdeildarliðið Randers á dögunum. Þar hefur liðinu ekki gengið vel og er í botnsætinu.

„Þetta er ekki aðgerð sem við hlaupum til með og ákveðum á einhverjum klukkutímum,“ sagði Jón Rúnar.

„Ef menn skoða okkar verk þá sjá þeir þetta er ekki eitthvað sem við erum að gera að gamni okkar. Þetta er ekki eitthvað sem við hlaupum til með að gera. En það er alltaf eitthvað annað að gerast í kringum þig. Það að Óli hættir er eitt af því,“ sagði Jón Rúnar.

Spurður hversu langan tíma það tæki að finna eftirmann Heimis sagði Jón Rúnar:

„Það getur tekið stuttan tíma og getur líka tekið langan tíma. Maður lemur engan til fylgis við sig. Hvorki í þessu né öðru,“ sagði Jón Rúnar Halldórsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert