Jafnt í toppslagnum í Kópavogi

Leifur Andri Leifsson sendir boltann upp völlinn í leik HK ...
Leifur Andri Leifsson sendir boltann upp völlinn í leik HK og ÍA í Kórnum í kvöld.

HK tók á móti ÍA í sjöundu umferð Inkasso-deildar karla í knattspyrnu í kvöld en leiknum lauk með markalausu jafntefli, 0:0. ÍA var í fyrsta sæti deildarinnar fyrir leikinn og HK í öðru sæti og því um alvöru toppslag að ræða.

Leikurinn fór fjörlega af stað og það var mikill hraði í honum til að byrja með. Heimamenn skoruðu mark á 32. mínútu sem var dæmt af vegna rangstöðu, Skagamenn brunuðu upp í sókn og voru óheppnir að komast ekki yfir í leiknum. Hvorugu liðinu tókst hins vegar að nýta sín tækifæri í sókninni og staðan markalaus í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn fór mjög rólega af stað og ljóst frá fyrstu mínútu að hvorugt lið ætlaði að fá á sig mark. Heimamenn settu mikla pressu á Skagamenn á síðustu fimmtán mínútum leiksins og áttu meðal annars skalla í slá í uppbótartíma. Hvorugu liðinu tókst hins vegar að skora og niðurstaðan því markalaust jafntefli.

HK er áfram í öðru sæti deildarinnar með 15 stig en ÍA er á toppnum með 17 stig. Bæði lið eru ennþá taplaus í deildinni.

HK 0:0 ÍA opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið í Kópavoginum með markalausu jafntefli í toppslagnum.
mbl.is