„Mér er létt“

Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ólafi Helga Kristjánssyni, þjálfara FH, var létt eftir að hafa séð lærisveina sína leggja Grindvíkinga að velli 2:1 þegar liðin áttust við í 12. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Kaplakrika í dag.

Fyrir leikinn í dag, þar sem 316 áhorfendur lögðu leið sína á völlinn í hádeginu, höfðu FH-ingar tapað tveimur leikjum í röð, gegn Íslandsmeisturum Vals og Stjörnunni.

„Jú mér er létt,“ sagði Ólafur við mbl.is eftir leikinn. „Við ætluðum okkur svo sannarlega að vinna og það tókst. Þetta var skrýtinn leikur. Það náðist eiginlega aldrei tempó í leikinn. Hann var hægur. Seinna markið okkar var mjög gott og Atli gerði vel þegar hann fékk vítið í fyrri hálfleik. Við vissum að það yrði erfitt að opna þá.

Ég hélt að þetta væri í höfn þegar við komust í 2:0 en ég var óhress með að við skyldum hleypa þeim inn í leikinn. Við gerðumst kærulausir í varnarleiknum og miðjan slitnaði svolítið hjá okkur. En okkur tókst að innbyrða sigurinn sem var gríðarlega mikilvægt og ég er fyrst og fremst ánægður með það,“ sagði Ólafur.

Ólafur og strákarnir hans kúpla sig nú um stund frá Pepsi-deildinni en næstu tveir leikir liðsins eru Evrópuleikir á móti finnska liðinu Lahti. Fyrri leikurinn verður í Finnlandi á fimmtudaginn og síðari leikurinn viku síðar í Kaplakrika. Ólafur gerði sér ferð til Finnlands á dögunum og sá leik með Lahti.

„Við munum leggja allt í sölurnar í þessum Evrópuleikjum. Þetta er gott lið sem við erum að fara að mæta. Leikurinn sem ég sá með Lahti var í fínum gæðum og við þurfum að spila tvo góða leiki til að eiga möguleika að komast áfram. Þetta lið er sýnd veiði en ekki gefin,“ sagði Ólafur en FH-liðið heldur utan á þriðjudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert