ÍBV fékk skell í Eyjum

Kaj Leo i Bartalsstovu með boltann í dag.
Kaj Leo i Bartalsstovu með boltann í dag. Ljósmynd/Óskar Pétur

Eyjamenn steinlágu 4:0 fyrir fersku liði Sarpsborg 08 sem var að leika fyrsta leik sinn í Evrópukeppni í sögu félagsins. Einvígi liðanna er svo gott sem búið núna í fyrstu umferð undankeppni Evrópudeildarinnar. Jafnræði var í leiknum áður en gestirnir sprengdu hann upp í síðari hálfleik.

Í fyrri hálfleik var Sarpsborg meira með boltann og átti fleiri sóknir en ÍBV átti þó einnig sínar sóknir. Sigurður Arnar Magnússon kom inn af varamannabekknum eftir nokkrar mínútur en Yvan Erichot, leikmaður Eyjamanna, fékk höfuðhögg og þurfti að yfirgefa völlinn. Sigurður átti fyrsta alvörufæri leiksins en allir í stúkunni héldu að boltinn myndi syngja í netinu áður en hann skrúfaðist fram hjá markinu.

Atli Arnarson átti næsta færi en hann var að spila á kantinum í dag og stakk sér inn fyrir vörnina, Gunnar Heiðar Þorvaldsson kom knettinum á Atla sem lét Aslak Falch verja frá sér. Uppbótartíminn í fyrri hálfleik var 12 mínútur en þegar hann var að fjara út slapp Shahab Zahedi inn fyrir vörn gestanna. Joonas Tamm elti Shahab og náði honum en Shahab féll þá niður, dómarinn sá enga ástæðu til þess að dæma aukaspyrnu og þar með rautt spjald, það fór ekki vel í Eyjamenn.

Leikurinn snerist algjörlega við í síðari hálfleik, snemma settu gestirnir fyrsta markið í leiknum þegar Rashad Muhammed nýtti sér mistök í varnarleik Eyjamanna, hann fékk þá dauðafæri sem hann skilaði í netið. Patrick Mortensen setti seinna mark gestanna með laglegu skoti eftir silkimjúka sókn gestanna.

Gestirnir skoruðu síðan tvö mörk í uppbótartíma en þá voru heimamenn nánast búnir að gefast upp. Ole Jorgen Halvorsen skoraði þriðja markið áður en Armin Askar rak síðasta naglann í kistuna með skoti úr markteignum.

Sorglegur endir á leik Eyjamanna sem sýndu flottan leik í 50 mínútur, eftir það sást gæðamunurinn á liðunum of vel.

ÍBV 0:4 Sarpsborg opna loka
90. mín. Leik lokið +5. Eyjamenn steinliggja í seinni hálfleik!
mbl.is