Þórsarar komnir á toppinn

Ármann Pétur Ævarsson fagnar marki sínu - sem var glæsileg …
Ármann Pétur Ævarsson fagnar marki sínu - sem var glæsileg hælspyrna. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þórsarar eru komnir á topp 1. deildarinnar í knattspyrnu, Inkasso-deildarinnar, í það minnsta þar til síðar í kvöld eftir sannfærandi sigur á Haukum, 4:1, á Þórsvellinum í kvöld.

Þeir eru með 26 stig, HK er með 25, ÍA og Víkingur frá Ólafsvík 23 stig. Hinir keppinautarnir þrír eiga allir eftir að spila í umferðinni en leikur ÍA gegn Leikni R. hófst í Breiðholtinu klukkan 19.15.

Haukar voru þó yfir í hálfleik, Arnar Aðalgeirsson skoraði á 14. mínútu, en Þórsarar voru fljótir að snúa leiknum sér í hag í seinni hálfleik. Áður höfðu þeir þó fengið vítaspyrnu sem Ármann Pétur Ævarsson tók en Jökull Blængsson í marki Hauka varði frá honum.

Eftir aðeins 15 mínútur höfðu Álvaro Montejo (úr vítaspyrnu), Ármann Pétur Ævarsson, með glæsilegri hælspyrnu, og Bjarki Þór Viðarsson skorað og staðan orðin 3:1. Óskar Elías Óskarsson bætti síðan við fjórða markinu með skalla eftir hornspyrnu á 78. mínútu.

Haukar töpuðu sínum sjöunda leik í fyrstu tólf umferðunum og eru í 8. sætinu með 13 stig, aðeins þremur stigum fyrir ofan fallsæti. Þá hafa þeir fengið á sig flest mörk allra í deildinni, 28 talsins.

Álvaro Montejo skorar úr vítaspyrnu og jafnar fyrir Þór í …
Álvaro Montejo skorar úr vítaspyrnu og jafnar fyrir Þór í leiknum í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Markmaður Hauka, Jökull Blængsson, ver vítaspyrnu frá Ármanni Pétri Ævarssyni.
Markmaður Hauka, Jökull Blængsson, ver vítaspyrnu frá Ármanni Pétri Ævarssyni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert