Ekki allt búið þótt við töpuðum þessum

Srdjan Tufegdzic á hliðarlínunni í dag. Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður …
Srdjan Tufegdzic á hliðarlínunni í dag. Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður KR, til vinstri. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Mbl.is náði tali af Srdjan Tufegdzic, þjálfara KA, eftir 1:0 tap gegn KR í 17. umferð Pepsi-deildar karla í dag. KA-liðið missti því af mikilvægum stigum í baráttunni um fjórða sætið í deildinni.

„Við vorum að leggja leikinn vel upp og mér fannst við byrja leikinn mjög vel og ég var ánægður með fyrri hálfleikinn, sérstaklega fyrsta kortérið. En svo í seinni hálfleik þá fannst mér vera atriði þar sem við gátum gert betur. Héldum boltanum illa og KR hafði stjórn á leiknum í seinni hálfleik.“

„Þeir voru að bíða eftir færinu til að opna okkur og skora mark og það gerðist. Við gáfumst ekki upp, reyndum það sem við gátum til að jafna en fengum engin almennileg færi til þess að jafna.“

Spurður um framhaldið sagði Tufa:

„Þessi leikur er bara búinn, við getum ekki verið að fara til baka og væla yfir því. Það eru fimm leikir eftir, 15 stig í pottinum og við verðum að undirbúa okkur vel fyrir næsta leik. Verðum að reyna að ná í sem flest stig í því sem eftir er af mótinu og sjáum svo hvert það skilar okkur.“

En er Tufa bjartsýnn fyrir baráttunni um fjórða sætið sem fram undan er?

„Ég er bjartsýnn, undanfarnar vikur eru búnar að vera flottar hjá okkur. Menn eru að standa sig vel á æfingum og í leikjum. Það er alls ekkert þannig að allt sé bara búið hjá okkur út af því að við töpuðum þessum leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert