Harðskeytt lið Tékkanna

Agla María Albertsdóttir í baráttu við varnarmenn Tékka í fyrri …
Agla María Albertsdóttir í baráttu við varnarmenn Tékka í fyrri leiknum sem endaði 1:1. Ljósmynd/Pavel Jirik

Öflugt lið Tékka á enga möguleika á að komast í umspil HM, jafnvel þó að því tækist að sigra Ísland á Laugardalsvellinum í dag og ná öðru sætinu í 5. riðli undankeppni heimsmeistaramóts kvenna í fótbolta.

Þýskaland er með 18 stig, Ísland 16 og Tékkland 13 fyrir lokaumferðina í dag. Þýskalandi nægir jafntefli í Færeyjum til að vinna riðilinn og það er nánast formsatriði.

Íslenska liðið á hins vegar von á harðri mótspyrnu af hálfu Tékka í dag. Það sást vel í fyrri leik liðanna síðasta haust, sem endaði 1:1. Lið Tékka er mjög harðskeytt á velli, spilar kraftmikinn fótbolta, og er sem fyrr byggt að mestu á leikmönnum Slavia Prag og Sparta Prag. Allir leikmenn í hópnum spila með þessum tveimur liðum, nema Klára Cahynová sem leikur með Turbine Potsdam í Þýskalandi.

Fjögur lið af þeim sjö sem enda í öðru sæti undanriðlanna komast í umspil um eitt sæti í lokakeppninni í Frakklandi. Allar líkur eru á að sigur komi Íslandi í umspilið og góðar líkur á að jafntefli dugi. Allir leikir í riðlunum sjö hefjast á sama tíma, kl. 15.00 að íslenskum tíma, til þess að öll liðin sitji við sama borð í lokaumferðinni. Hvert stig og jafnvel hvert mark getur ráðið úrslitum um hvaða lið komast áfram.

Flautað verður til leiks á Laugardalsvellinum klukkan 15 í dag og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert