Rúnar Alex þurfti að hætta leik vegna meiðsla

Rúnar Alex er hér að verja frá Florian Thauvin.
Rúnar Alex er hér að verja frá Florian Thauvin. AFP

Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður íslenska landsliðsins, þurfti að hætta leik eftir fyrri hálfleikinn gegn heimsmeisturum Frakka en þjóðirnar gerðu 2:2 jafntefli í vináttuleik í Guiangamp í kvöld.

Erik Hamrén landsliðsþjálfari sagði í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leikinn að Rúnar Alex hefði átt að spila allan leikinn í kvöld en hann hafi kvartað yfir meiðslum í leikhléinu og Hannes Þór Halldórsson hafi því tekið stöðu Rúnars.

Báðir markverðirnir stóðu sig vel í leiknum og Hannes verður ekki sakaður um mörkin. Fyrra markið sem Frakkar skoruðu var sjálfsmark Hólmars Arnar Eyjólfssonar og síðara markið kom úr vítaspyrnu.

Þá meiddist bakvörðurinn Birkir Már Sævarsson aftan í læri og óvíst er hvort hann verði búinn að ná sér fyrir leikinn gegn Sviss í Þjóðadeildinni á Laugardalsvellinum á mánudagskvöldið.

mbl.is