„Fínasta frammistaða“

Gylfi og Antoine Griezmann í leiknum í Guingamp í gærkvöld.
Gylfi og Antoine Griezmann í leiknum í Guingamp í gærkvöld. AFP

„Já já, við erum alveg sáttir með frammistöðuna og varnarleikinn á heildina litið þótt svekkjandi sé að fá á sig mörk í lokin. Þetta var æfingaleikur, og ekki eins og liðin hafi verið að spila upp á líf og dauða, en fínasta frammistaða hjá okkur, held ég,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við Morgunblaðið að loknum 2:2 jafnteflisleiknum í Frakklandi í gærkvöld en Gylfi er fyrirliði íslenska liðsins í fjarveru Arons Einars Gunnarssonar.

Finnst þér að ykkur hafi með þessu tekist að svara fyrir ykkur eftir að neikvæðnisraddir fóru að heyrast á dögunum?

„Nei, ég held ekki,“ sagði Gylfi og hló. Við höfum rætt það að fólk sé að missa trúna á okkur eftir að við töpuðum á móti liði sem er á topp tíu í heiminum og í framhaldinu einu besta liði heims. Síðan bætist HM ofan á þetta en við erum rólegir og vitum alveg hvað er að gerast. Þjálfaraskipti áttu sér stað og við erum að spila á móti bestu liðum í heimi í stað þess að spila á móti Liechtenstein eða öðrum smáþjóðum. Auðvitað vitum við að frammistaðan í einhverjum þessara leikja var ekki góð en við erum alveg rólegir. Þessi leikur í kvöld er ekki það sem skiptir mestu máli heldur leikurinn á mánudaginn og svo undankeppnin fyrir EM á næsta ári,“ sagði Gylfi.

Fannstu fyrir því að Frakkarnir yrðu pirraðir þegar leið á leikinn? Stuðningsmenn þeirra voru til dæmis ósáttir við gang mála þegar Ísland var 2:0 yfir. „Við fundum alveg fyrir því að þeir voru að missa þolinmæðina og urðu smá pirraðir. En við fundum líka algerlega fyrir því í fyrri hálfleik að þetta var æfingaleikur. Leikurinn var frekar hægur og maður fann fyrir því inni á vellinum að hraðinn var minni en í keppnisleikjum. En gæðin sem Frakkarnir búa yfir eru náttúrlega gríðarleg og því var fínt hjá okkur að halda þeim niðri í 80 mínútur,“ sagði Gylfi ennfremur.

Sjá allt um leikinn gegn Frökkum í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »