Birkir missir af landsleikjunum

Aron Elís Þrándarson
Aron Elís Þrándarson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn kvarnast úr íslenska landsliðshópnum sem mun glíma við firnasterkt lið Belga í Brussel í Þjóðadeildinni í knattspyrnu. Birkir Bjarnason getur ekki verið með vegna meiðsla og hefur Aron Elís Þrándarson verið kallaður inn í hópinn í hans stað. 

Birkir verður þar af leiðandi ekki heldur með í vináttuleiknum gegn Katar í kjölfarið. Eftir að tilkynnt var um val Eriks Hamrén á landsliðinu þá hafa þrír fastamenn þurft að draga sig út úr hópnum. Auk Birkis eru það Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson. 

Þar fyrir utan lá fyrir að reyndir leikmenn eins og Ragnar Sigurðsson, Emil Hallfreðsson og Jón Daði Böðvarsson væru ekki leikfærir að þessu sinni. 

Aron Elís er 24 ára og uppalinn í Víkingi í Fossvoginum. Hann hefur verið hjá Álasundi í Noregi síðan 2015. Hann á að baki tvo A-landsleiki. 

Birkir Bjarnason
Birkir Bjarnason mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert