Allir æfðu í hrossataðslyktinni

Rúrik Gíslason og Aron Einar Gunnarsson hita upp á æfingu …
Rúrik Gíslason og Aron Einar Gunnarsson hita upp á æfingu landsliðsins í Peralada í dag. mbl.is/Sindri

Allir leikmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu tóku þátt í æfingu liðsins í Peralada á Spáni í dag í aðdraganda leiksins við Andorra á föstudag, fyrsta leiksins í undankeppni EM 2020.

Ilm af hrossataði lagði yfir völlinn sem íslenska liðið æfði á, í svolitlum vindi en hlýju og góðu veðri. Félagslið Peralada, sem er eins konar varalið Girona, spilar á vellinum í spænsku C-deildinni og eru aðstæður góðar.

Nýr styrktar- og þolþjálfari landsliðsins, Tom Joel, stýrði upphituninni sem fjölmiðlar fengu að fylgjast með. Joel hefur starfað fyrir enska úrvalsdeildarfélagið Leicester frá árinu 2011 en þar er yfirmaður hans Paul Balsom, sem unnið hefur fyrir sænska landsliðið sem Erik Hamrén þjálfaði einmitt árin 2009-2016.

Hamrén virðist geta stillt upp sínu sterkasta liði á föstudaginn, af þeim leikmönnum sem á annað borð gáfu kost á sér fyrir leikina við Andorra og Frakkland. Í hópinn vantar hins vegar menn á borð við Emil Hallfreðsson og Jón Daða Böðvarsson vegna meiðsla.

Rúrik Gíslason, Gylfi Þór Sigurðsson og Arnór Ingvi Traustason sparka …
Rúrik Gíslason, Gylfi Þór Sigurðsson og Arnór Ingvi Traustason sparka boltanum sín á milli. mbl.is/Sindri
Jón Guðni Fjóluson og Hörður Björgvin Magnússon í stuttum sprettum.
Jón Guðni Fjóluson og Hörður Björgvin Magnússon í stuttum sprettum. mbl.is/Sindri
Tom Joel er farinn að stýra upphitun íslenska landsliðsins en …
Tom Joel er farinn að stýra upphitun íslenska landsliðsins en hann tók við af Sebastian Boxleitner á dögunum. mbl.is/Sindri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert