Fimmtíu sinnum færri en síðast

Það vantaði ekki stemninguna hjá íslenskum stuðningsmönnum á EM 2016. …
Það vantaði ekki stemninguna hjá íslenskum stuðningsmönnum á EM 2016. Hér eru nokkrir þeirra sem mættu á Stade de France 3. júlí. AFP

Síðast þegar íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu lék á Stade de France var ákveðnum hápunkti náð í stemningu meðal íslenskra stuðningsmanna. Flugfélögin höfðu ekki haft undan við að koma þúsundum Íslendinga út á EM í Frakklandi sumarið 2016 og færri komust að en vildu á síðasta leik liðsins á mótinu.

Frakkland og Ísland mætast á Stade de France í kvöld í undankeppni næsta Evrópumóts, sem fram fer víða um Evrópu 2020. Samkvæmt upplýsingum frá KSÍ er búist við því að um 150-200 Íslendingar verði á leiknum í kvöld innan um 70.000 Frakka eða svo. Það er talsverð breyting frá því að þjóðirnar mættust í 8-liða úrslitum EM á sínum tíma en þá er talið að hátt í 10.000 Íslendingar hafi verið í stúkunni.

Íslenska liðið og stuðningsfólk þess var mikið í sviðsljósinu á meðan á EM í Frakklandi stóð. Eftir leikinn í 8-liða úrslitunum átti hópurinn allur góða stund í einu horninu á Stade de France þar sem leikmenn dvöldu lengi eftir leik og þökkuðu vinum, fjölskyldu og stuðningsmönnum fyrir sinn þátt í ævintýrinu.

Leikmenn og þjálfarar íslenska liðsins hafa óhikað sett stefnuna á að komast á EM á næsta ári en undankeppnin fer fram á þessu ári og byrjaði Ísland á 2:0-sigri gegn Andorra. Eftir leikinn við Frakka í kvöld eru næst á dagskrá jafnvel enn mikilvægari leikir við Albaníu og Tyrkland á Laugardalsvelli 8. og 11. júní.

Íslenska liðið klappaði stuðningsmönnum lof í lófa eftir mótið á …
Íslenska liðið klappaði stuðningsmönnum lof í lófa eftir mótið á fallegri stundu á Stade de France. AFP
Bláa hafið var áberandi á EM 2016 og víkingaklappið stal …
Bláa hafið var áberandi á EM 2016 og víkingaklappið stal senunni. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert