Auðvitað lætur maður sig dreyma

Bjarki Steinn Bjarkason með boltann í kvöld.
Bjarki Steinn Bjarkason með boltann í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Auðvitað lætur maður sig dreyma um að allt fari á besta vegu,“ sagði Bjarki Steinn Bjarkason, leikmaður ÍA, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur liðsins á FH í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Bjarki, sem er fæddur árið 2000, skoraði bæði mörk ÍA.

„Við gerðum þetta vel og við skiluðum sigri sem var helvíti flott hjá okkur. Við komumst yfir snemma leiks og það var mikilvægt fyrir okkur. Það lá eitthvað aðeins á okkur en við héldum það út, settum á þá og kláruðum leikinn,“ sagði Bjarki. 

„Boltinn getur alltaf skoppað á grasinu, en ég náði að halda fókus og þetta heppnaðist,“ sagði Bjarki um fyrra markið sitt. „Steinar fær boltann og köttar vel inn og gefur á mig. Ég ákvað að láta vaða og það heppnaðist svona vel,“ bætti hann við um seinna markið, sem var glæsilegt. 

ÍA er með þrjá sigra og eitt jafntefli í fyrstu fjórum leikjunum. Það verður að teljast glæsileg byrjun hjá nýliðum. „Það er mjög mikilvægt að byrja svona vel. Það sést inn á vellinum að stemningin okkar er góð og við erum allir saman í þessu og vonandi verðum við bara betri,“ sagði Bjarki Steinn. 

mbl.is