Stöðvar HK sigurgöngu Grindavíkur?

HK vann síðast sigur gegn Grindavík árið 2016 þegar liðin …
HK vann síðast sigur gegn Grindavík árið 2016 þegar liðin mættust í 1. deildinni. mbl.is//Hari

HK fær Grindavík í heimsókn í 6. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í Kórinn í Kópavogi í dag klukkan 16. HK er í tíunda sæti deildarinnar með 4 stig á meðan Grindavík er í sjötta sætinu með 8 stig.

Í síðustu umferð tapaði HK í Vesturbænum fyrir KR í markaleik, 3:2, á meðan Grindavík vann mikilvægan 1:0-sigur gegn Fylki í Grindavík. Eini sigurleikur HK á tímabilinu til þessa kom gegn ÍBV í 4. umferð deildarinnar en Grindavík er á miklu skriði þessa dagana og hefur ekki tapað síðan í 1. umferðinni.

Grindavík hefur unnið tvo leiki í röð í deildinni, gegn Fylki og KR í Grindavík og þá hefur liðið gert jafntefli við Stjörnuna og ÍBV. HK gerði jafntefli við Breiðablik í annarri umferð deildarinnar en hefur tapað fyrir FH, Stjörnunni og loks gegn KR í síðustu umferð.

Síðast þegar liðin mættust í efstu deild, sumarið 2008, fór Grindavík með 2:0-sigur af hólmi í Kópavogi. Aljosa Gluhovic og Gilles Mbang Ondo skoruðu mörk Grindvíkinga en leik liðanna í fyrri umferðinni lauk með 2:2-jafntefli þar sem Andri Steinn Birgison skoraði bæði mörk Grindavíkur en Mitja Bruic og Þorlákur Helgi Hilmarsson skoruðu mörk HK.

Í síðustu fimm viðureignum liðanna hefur Grindavík fagnað sigri í þrígang, aðeins einu sinni hafa liðin sæst á jafntefli, nú síðast í janúar í Fótbolta.net mótinu, en HK fagnaði síðast sigri gegn Grindavík þegar liðin mættust í 1. deildinni, í júní 2016, í Kórnum þar sem HK vann 2:1-sigur. Sveinn Aron Guðjohnsen og Hákon Ingi Jónsson skoruðu mörk HK í leiknum en William Daniels minnkaði muninn fyrir Grindavík á lokamínútum leiksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert