„Við vorum óhræddir í dag“

Helgi Sigurðsson
Helgi Sigurðsson

„Það má segja að þetta séu tvö töpuð stig því við komumst tvisvar yfir í leiknum og eigum að vera það reynslumiklir að láta það ekki gerast að missa forystuna tvisvar niður,“ sagði Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis eftir 2:2 jafntefli gegn FH á heimavelli í kvöld.

„Það var smá heppnisstimpill á seinna jöfnunarmarkinu. En þetta er búinn að vera erfiður tími hjá okkur, mörg meiðsli og erfitt að fylla hópinn af leikmönnum. “

„Við vorum í dag óhræddir við að fara hátt á völlinn og héldum boltanum þegar við þurftum að gera það. Við vorum að spila gegn mjög sterku FH liði í dag og við vissum það að ef við myndum ekki vera með nógu góða pressu þá myndu þeir spila sig út úr því. Við náðum að koma þeim í vandræði í dag og með smá klókindum þá hefðum við getað skorað þriðja markið en auðvitað eru menn orðnir þreyttir undir lokin í svona hröðum leik og þá eru ákvarðanir á síðasta þriðjungi ekki nógu góðar.“

Kom aldrei til greina að láta Geoffrey Castillion spila, sem er í láni frá FH hjá Fylki?

„Nei, við erum með samkomulag við FH um að hann spili ekki gegn FH og við virðum það auðvitað. Það hefði verið gott að hafa hann til taks en svona er bara staðan og Hákon Ingi stóð sig frábærlega í dag.“

„Við erum að glíma við meiðsl. Ólafur Ingi er búinn að vera tæpur, Hewson meiddur og Emil meiddur lengi. Við fengum Odd Inga inn í dag sem neyðarúrræði hreinlega til að fylla hóp. Annar flokkurinn okkar er í æfingaferð og með meiðslin þá urðum við að bregða á það ráð að hringja í Odd. Hann hefur ekkert æft með okkur og kom frábærlega inn í þennan leik. Hann var tilbúinn að hjálpa liðinu í þessum erfiðu aðstæðum og stórt hrós á hann,“ sagði Helgi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert