„Ísland gerði vel í að tefja“

Senol Günes, landsliðsþjálfari Tyrkja, á blaðamannafundi í Laugardalnum.
Senol Günes, landsliðsþjálfari Tyrkja, á blaðamannafundi í Laugardalnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Senol Günes, landsliðsþjálfari Tyrkja í knattspyrnu, vildi ekki tjá sig um deilurnar sem spruttu upp við komu liðsins til landsins eftir 2:1-sigur Íslands í leik þjóðanna í undankeppni EM á Laugardalsvelli í kvöld.

Eins og víðfrægt er orðið fóru margir Tyrkir mikinn á samfélagsmiðlum eftir að því var haldið fram að liðið hafi viljandi verið tafið við komuna til landsins á sunnudagskvöld. Hann var spurður að því á blaðamannafundi eftir leikinn hvort uppákoman hafði haft áhrif á tap liðsins í kvöld.

„Við eigum að horfa á fótboltann, það má spyrja einhvern annan um hitt málið. Við komum hingað þreyttir, en bjartsýnir. Fyrstu 30 mínútur leiksins vorum við stressaðir, en annars vorum við góðir. Þeir náðu undirtökunum með tveimur föstum leikatriðum, en mínir menn sýndu styrk til þess að koma til baka og reyna að ná í stig,“ sagði Günes.

Tyrkir unnu Frakka á heimavelli á laugardagskvöld, 2:0, og sagði Günes að langt ferðalag hefði skipt máli í kvöld.

„Ég vil ekki vera svartsýnn eftir þessi úrslit. Við vorum betra lið, en það var ýmislegt sem var gegn okkur. Ferðalagið var langt og stutt frá síðasta leik. Ekki gleyma að við vorum að spila annan leikinn á þremur dögum,“ sagði Günes

„Ég vil ekki tala um dómarann“

Günes var spurður út í dómgæsluna í leiknum, en Tyrkir nældu sér í fjögur gul spjöld.

„Ég vil ekki tala um dómarann, því það væri að finna afsökun. Við ættum að horfa á okkar leik. Auðvitað erum við fúlir að hafa tapað leiknum. Ísland er lið sem vill verjast vel og reynir svo að byggja upp sóknir. Það sem vantaði hjá okkur var að berjast um seinni boltanna. Ísland gerði vel í að tefja tímann og sækja aukaspyrnur,“ sagði Günes.

Tyrkland, Ísland og Frakkland eru öll með níu leiki eftir fyrstu fjóra leikina og raða sér í þrjú efstu sætin í riðlinum.

„Þessi undankeppni er maraþon. Við sögðum fyrir fram að Frakkar væru besta liðið í riðlinum og að okkar helstu keppinautar um annað sætið yrðu Íslendingar,“ sagði Günes og viðurkenndi að fyrir fram hefði verið eðlilegra að tapa fyrir Frökkum en Íslendingum. Jafntefli í þessum leik hefði komið liðinu mjög vel.

mbl.is