Stórleikur í Krikanum og vígsluhátíð í Víkinni

Pétur Viðarsson og Guðjón Baldvinsson í baráttu um boltann í …
Pétur Viðarsson og Guðjón Baldvinsson í baráttu um boltann í viðureign FH og Stjörnunnar í Kaplakrika í fyrra. mbl.is/Valgarður Gíslason

Áttunda umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu hefst í kvöld með þremur leikjum og þar ber hæst viðureign grannaliðanna FH og Stjörnunnar sem eigast við á Kaplakrikavelli.

Viðureignir FH og Stjörnunnar hafa undantekningalaust verið hörkuleikir. Stjarnan hrósaði sigri í Krikanum í fyrra en FH fagnaði sigri í Garðabænum. Bæði hafa 11 stig og eru í 4.-5. sæti í deildinni og því er mikið í húfi í kvöld.

Það verður mikið húllum hæ í Víkinni þar sem Víkingar vígja nýjan gervigrasvöll þegar þeir taka á móti nýliðunum og grönnum sínum úr HK. Víkingar eru eina liðið í deildinni sem ekki hefur unnið leik. Þeir eru í næstneðsta sæti í deildinni með 4 stig en HK er í 9. sætinu með 5 stig. Vígsluhátíðin hefst klukkan 18:00 þar sem verður hoppukastali fyrir börnin og skrúðganga yngri iðkenda áður en Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vígir völlinn.

Breiðablik getur náð þriggja stiga forskoti á toppi deildarinnar en Blikarnir sækja Fylki heim í Árbæinn. Breiðablik er í toppsætinu með 16 stig, jafnmörg og nýliðar ÍA sem eru í öðru sætinu, en Fylkismenn eru í 7. sæti deildarinnar með 9 stig. Blikarnir unnu báðar viðureignir liðanna í deildinni í fyrra, 2:0 í Kópavoginum og 3:0 í Árbænum.

Allir leikir kvöldsins hefjast klukkan 19.15 og verða í beinni textalýsingu hér á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert