Jeffs og Andri stýra ÍBV út tímabilið

Andri Ólafsson og Ian Jeffs munu stýra liði ÍBV út ...
Andri Ólafsson og Ian Jeffs munu stýra liði ÍBV út þetta tímabil. Ljósmynd/ÍBV

Ian Jeffs og Andri Ólafsson munu stýra knattspyrnuliði ÍBV út tímabilið en þetta kemur fram á heimasíðu félagins. Þeir Jeffs og Andri taka við liðinu af Pedro Hipólito sem var rekinn frá félaginu fyrr í þessum mánuði en Jeffs verður aðalþjálfari liðsins og Andri mun aðstoða hann.

ÍBV hefur ekki gengið vel það sem af er sumri en liðið er í neðsta sæti úrvalsdeildarinnar, Pepsi Max-deildarinnar, með einungis 5 stig eftir fyrstu ellefu umferðirnar og er sem stendur sjö stigum frá öruggu sæti.

Jeffs og Andri stýrðu liðinu í síðasta leik gegn KR á Hásteinsvelli þar sem Vesturbæingar fóru með sigur af hólmi, 2:1, en þeir þekkja báðir vel til hjá félaginu. Jeffs var aðstoðarmaður Hipólito og Andri Ólafsson hefur áður verið í þjálfarateymi liðsins.

mbl.is