„Þurftum að skeina okkur“

Pálmi Rafn Pálmason.
Pálmi Rafn Pálmason. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Þetta var kannski ekki opnasti leikurinn sem hefur verið spilaður hérna, eða almennt,“ sagði Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður KR, eftir markalaust jafntefli gegn Molde í fyrstu umferð Evrópudeildarinnar í kvöld. KR er úr leik eftir 7:1-tap í fyrri leiknum ytra.

„Eftir afhroðið í fyrri leiknum ætluðum við að sýna aðeins úr hverju við værum gerðir. Við ætluðum að reyna að vinna þetta eða alla vega gera mun betur en í síðasta leik. 0:0 er töluvert betra en 7:1,“ sagði Pálmi og bætti við að KR-ingar hefðu getað stolið sigrinum í kvöld.

Leikurinn var ekki mikið fyrir augað en Björgvin Stefánsson fékk besta færi leiksins skömmu fyrir leikslok en markvörður Molde varði vel frá sóknarmanninum sem var sloppinn einn í gegn vörn gestanna.

Pálmi, sem lék í mörg ár í efstu deildinni í Noregi, segir að það sé töluverður getumunur á norsku og íslensku deildunum. Hann segir þó að fyrri leikurinn endurspegli ekki muninn á KR og Molde, eða milli íslenskra og norska liða almennt.

„Það er hærra „level“ hjá þeim, það er kannski ekki 7:1 munur. Eðlilega er getumunur. Þeir eru að vinna með annan fjárhag og við verðum að sætta okkur við það. Ég held að bilið sé alla vega ekki að stækka,“ sagði Pálmi.

Hann telur og vonar að þetta einvígi á móti Molde trufli KR-inga ekki í deildarkeppninni, þar sem vesturbæingar hafa átta leiki í röð.

„Við lendum bara í ruglleik þarna og þeir skora úr mögulega öllu sem þeir gátu skorað úr. Ég er ekkert að verja það að við skitum. Við gerðum 0:0-jafntefli núna og erum ekki alveg farnir. Ég efast um að þetta eigi eitthvað eftir að trufla okkur. Við lentum á skítaleik og þurftum að skeina okkur allverulega og held við séum búnir að því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert