„Þær reyna bara að meiða okkur“

Berglind Björg Þorvaldsdóttir ræddi við mbl.is í Sarajevó eftir risasigur Breiðabliks, 11:0, gegn Dragon frá Norður-Makedóníu í öðrum leik sínum í undanriðli Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í Sarajevó í dag í ansi furðulegum leik.

„Já, ég held að þetta sé einn furðulegasti fótboltaleikur sem ég hef spilað. Ég veit ekki hvað ég á að segja um þetta lið, þær voru bara ógeðslega leiðinlegar,“ sagði Berglind Björg, en það eru orð að sönnu eins og lesa má í umfjöllun blaðamanns um leikinn.

Leikmenn Dragon spiluðu á köflum mjög óheiðarlega og voru meðal annars að sparka, hrinda og toga í treyjur.

„Já og klóra og bíta og allan fjandann. Ég veit ekki hvað þeirra upplegg var, það lítur út fyrir að hafa verið að meiða okkur. Markvörðurinn kýlir Alex og svo eru þær bara að reyna að meiða okkur,“ sagði Berglind, en tók undir að það var gott hjá Blikum að svara því með því að skora mörkin.

„Já, og ég er líka mjög ánægð með að við héldum alltaf áfram. Við vildum skora fleiri og geggjað að skora ellefu góð mörk í dag,“ sagði Berglind, sem sjálf skoraði fjögur mörk.

„Ég átti þetta inni. Það var geggjað að geta skorað í dag og geta unnið þennan leik,“ sagði Berglind Björg við mbl.is í Sarajevó, en nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert