Heilsteyptir Íslandsmeistarar KR

Rúnar Kristinsson og lærisveinar hans fagna Íslandsmeistaratitlinum á Hlíðarenda í …
Rúnar Kristinsson og lærisveinar hans fagna Íslandsmeistaratitlinum á Hlíðarenda í gærkvöld. mbl.is/Hari

KR varð í gær Íslandsmeistari karla í knattspyrnu í tuttugasta og sjöunda sinn. Niðurstaðan varð ljós eftir að KR náði í þrjú stig á Hlíðarenda og lagði þar Val að velli 1:0.

Þegar enn eru tvær umferðir eftir af Pepsi Max-deildinni er KR með níu stiga forskot. KR er með 46 stig en Breiðablik 37 og yfirburðir KR-inga því töluverðir.

Segja má að með frammistöðu sinni á Hlíðarenda í gær hafi KR-ingar sýnt vel hvernig sumarið hefur gengið fyrir sig hjá liðinu. Valsmönnum gekk erfiðlega að byggja upp spil gegn KR-ingum sem einnig voru mjög lunknir í að setja pressu á öftuustu línuna hjá Val þegar færi gafst.

Svona hefur sumarið verið hjá KR. Mjög erfitt er að skapa marktækifæri og skora gegn liðinu. KR hefur þó ekki legið í vörn heldur er búið að hanna heilsteypt lið sem verst mjög vel en á einnig auðvelt með að skapa sér marktækifæri. KR hefur aðeins tapað tveimur leikjum í deildinni og aðeins fengið á sig 20 mörk. Stórtapið fyrir Molde í Evrópukeppninni var ef til vill undantekningin sem sannar regluna.

Sófaspekingar horfa gjarnan til þess á vorin hvaða lið eru með þekktustu nöfnin í sínum röðum. KR-ingar sóttu tvo leikmenn til Víkings sem ekki höfðu verið mest í sviðsljósinu þótt frambærilegir séu. Aðstoðarþjálfarinn Bjarni Guðjónsson starfaði hjá Víkingi og vissi sjálfsagt hvernig þessir menn myndu falla inn í hópinn hjá KR.

Sjá allt um leikina í Pepsi Max-deild karla á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert