John Andrews ráðinn þjálfari Víkings

John Andrews hefur verið ráðinn þjálfari Víkings.
John Andrews hefur verið ráðinn þjálfari Víkings. Ljósmynd/Víkingur

Knattspyrnudeild Víkings hefur ráðið John Henry Andrews sem þjálfara meistaraflokks kvenna. Víkingur spilar í 1. deildinni á næsta tímabili eftir að HK/Víkingur féll á nýliðinni leiktíð og félögin ákváðu að hætta samstarfinu.

Andrews þjálfaði meistaraflokk kvenna hjá Aftureldingu í mörg ár og þá þjálfaði hann Völsung á síðustu leiktíð og kom liðinu upp í 1. deildina. 

Fréttatilkynning Víkings: 

John fær það mikilvæga verkefni að byggja upp nýjan meistaraflokk kvenna í knattspyrnu hjá félaginu. Víkingur ætlar sér stóra hluti í íslenskri kvennaknattspyrnu í framtíðinni enda hefur félagið á að skipa afar sterkum og efnilegum yngri flokkum í kvennaknattspyrnu.

John þjálfaði meistaraflokk kvenna hjá Aftureldingu í efstu deild til margra ára, en tvö síðustu árin var hann hjá Völsungi og kom meistaraflokki félagsins upp í Inkasso-deild á síðasta tímabili. John hefur reynslu af að starfa á alþjóðlegum vettvangi en hann starfaði meðal annars fyrir alþjóðlegu akademíuna hjá Liverpool.

John er með UEFA A þjálfaragráðu og stefnir á að ljúka UEFA pro gráðu í upphaf næsta árs. Hann er einnig með háskólagráðu í íþróttafræðum.

Víkingur býður John Andrews velkominn til starfa og bindur miklar vonir við störf hans.

mbl.is