Sú markahæsta á leið til AC Milan

Berglind Björg Þorvaldsdóttir var markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð …
Berglind Björg Þorvaldsdóttir var markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð þar sem hún skoraði 16 mörk í sautján leikjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Berglind Björg Þorvaldsdóttir er á leið til ítalska stórliðsins AC Milan á láni frá Breiðabliki samkvæmt heimildum mbl.is. Berglind fór út að skoða aðstæður hjá ítalska stórliðinu á dögunum og leist afar vel á aðstæður í Mílanó og mun hún skrifa undir samning við félagið á næstu dögum samkvæmt heimildum mbl.is.

AC Milan leikur í A-deildinni á Ítalíu og er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar með 20 stig eftir fyrstu tíu leiki sína, ellefu stigum minna en topplið Juventus, en AC Milan á leik til góða á Juventus. „Ég get staðfest að ég fór út að skoða aðstæður hjá félaginu á dögunum og þar var allt til fyrirmyndar,“ sagði Berglind í samtali við mbl.is í dag.

Samkvæmt heimildum mbl.is mun framherjinn skrifa undir lánssamning út tímabilið. Berglind Björg mun því klára tímabilið með AC Milan og snúa aftur til Íslands um miðjan maí. Hún mun því missa af fyrstu tveimur leikjum tímabilsins með Breiðabliki, gegn FH, Selfossi en þessi 27 ára gamli framherji varð markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð með 16 mörk í sautján leikjum.

Berglind þekkir ítölsku A-deildina ágætlega eftir að hafa spilað átta leiki með Verona árið 2017. Sú dvöl reyndist hins vegar hálfgerð martröð á endanum þar sem ekki var staðið við gerða samninga. Berglind fór einnig á láni á síðustu leiktíð þegar hún samdi við hollenska úrvalsdeildarliðið PSV og sneri hún þá aftur til Íslands fyrir tímabilið hér heima.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir vakti athygli stórliða fyrir frábæra spilamennsku í …
Berglind Björg Þorvaldsdóttir vakti athygli stórliða fyrir frábæra spilamennsku í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð þar sem hún skoraði 10 mörk í sjö leikjum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert