Stöðvar veiran þátttöku Emils, Birkis og Berglindar í landsleikjunum?

Emil Hallfreðsson og Birkir Bjarnason eru búsettir á Norður-Ítalíu.
Emil Hallfreðsson og Birkir Bjarnason eru búsettir á Norður-Ítalíu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Geta Birkir Bjarnason og Emil Hallfreðsson ekki leikið með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu gegn Rúmenum 26. mars og Berglind Björg Þorvaldsdóttir ekki með kvennalandsliðinu á alþjóðlega mótinu á Spáni 4. til 10. mars?

Þremenningarnir leika öll með liðum á norðurhluta Ítalíu þar sem kórónuveiran COVID-19 hefur breiðst út síðustu daga. Birkir með Brescia, Emil með Padova og Berglind með AC Milan. Bæði Brescia og Mílanó eru í Lombardy-héraði (Langbarðalandi) og Padova er í Veneto-héraði en þetta eru einmitt þau svæði þar sem veiran hefur stungið sér niður.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir leikur með AC Milan í Langbarðalandi.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir leikur með AC Milan í Langbarðalandi. Ljósmynd/@acmilan

Stjórnvöld á Ítalíu hafa brugðið á það ráð að setja um 50 þúsund manns í nokkrum bæjum og þorpum í Langbarðalandi og Veneto í sóttkví. Engar fregnir hafa verið af því að um slíkt sé að ræða í Brescia, Mílanó og Padova, enn sem komið er.

Það er hins vegar hugsanlegt að íslenska landsliðsfólkið gæti lent í vandræðum með að komast frá Ítalíu ef ástandið versnar og þess yrði krafist að fólk sem færi úr landi yrði sett í sóttkví áður en það fengi að umgangast aðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert