„Aldrei kynnst öðrum eins óheiðarleika“

Úr leiknum örlagaríka í Frostaskjóli 1995. Mihajlo Bibercic sækir að …
Úr leiknum örlagaríka í Frostaskjóli 1995. Mihajlo Bibercic sækir að Pétri Marteinssyni. Morgunblaðið/Golli

Aldarfjórðungur var í dag liðinn frá fyrsta knattspyrnuleiknum sem undirritaður man eftir. Ég var fimm ára þennan ágæta júnídag árið 1995 þegar fjölskyldan hélt í sína árlegu bílferð vestur í bæ. Framarar voru að fara spila við KR í þriðju umferð Íslandsmótsins í Frostaskjóli.

Ég man ekki eftir mörgu merkilegu á þessum aldri, og sennilega gerðist margt merkilegra en venjulegur fótboltaleikur milli Fram og KR í þriðju umferð þetta blessaða árið, Skagamenn unnu deildina auðveldlega án þess að þurfa líta um öxl og Framarar urðu langneðstir. En það var ekkert venjulegt við akkúrat þennan leik Fram og KR því að í honum var jú... innkastið.

Gamlir KR-ingar sem hafa lesið þetta langt eru eflaust byrjaðir að dæsa. Eru Framarar enn þá að væla yfir þessu, 25 árum seinna? Ég get auðvitað ekki talað fyrir hönd þeirra allra, en þegar fimm ára barn verður fyrir öðru eins áfalli, þá verður eftir ör sem aldrei grær.

Atvik voru þau að Ríkharður Daðason hafði komið Frömurum yfir eftir um hálftímaleik þegar hann skoraði úr vítaspyrnu. Serbinn eftirminnilegi Mihajlo Bibercic jafnaði metin snemma í síðari hálfleik en nokkrum mínútum eftir það hófust ólætin og hamagangurinn.

Veit ekki hvað er hægt að segja um svona framkomu

Eins og segir í umfjöllun Morgunblaðsins 7. júní 1995: „Hið umdeilda atvik átti sér stað á 58. mínútu. KR-ingar tóku innkast eftir að Gauti Laxdal spyrnti knettinum út af þegar KR-ingur meiddist, Framarar bjuggust við því að fá knöttinn en KR-ingar voru ekki á því, Þormóður Egilsson sendi á Bibercic sem gaf fyrir markið á Einar Þór Daníelsson sem skoraði.“ Bibercic sjálfur skoraði svo sigurmarkið um stundarfjórðungi fyrir leikslok. Óréttlætið fullkomnað.

Fimm ára guttinn á pöllunum hafði sennilega ekkert sérlega fyrir því að fylgjast með ofangreindu. Í það minnsta man ég aðdragandan ekki og þarf gjarnan að flétta upp í sögubókunum til að hafa staðreyndirnar á hreinu. Það sem risti djúpt voru viðbrögðin. Stuðningsmenn Fram urðu vitstola og bauluðu á allt og alla til leiksloka. KR-ingar virtust á sama tíma hálf skömmustulegir. Fjölskyldumeðlimur (sem rifjar upp söguna reglulega) lifnar gjarnan við þegar kemur að partinum þar sem Guðmundi Stefáni Maríassyni dómara var líka misboðið; Frömurum var víst leyft að sparka niður andstæðinga sína nokkurnveginn stikkfrí næstu mínútur á eftir. Það er oft stutt í villimennskuna hjá okkur unnendum knattsparksins.

Birkir Kristinsson, þáverandi fyrirliði Fram, skóf ekki utan af ranglætinu í samtali sínu við Morgunblaðið eftir leik. „Ég hef aldrei kynnst öðrum eins óheiðarleika. Menn tala hér um „fair play“ og svo er það þverbrotið. Ég er eiginlega orðlaus og veit ekki hvað er hægt að segja um svona framkomu.“

„Við vorum alveg heiðarlegir“

Dýrlingurinn Þormóður Egilsson sá þetta auðvitað allt öðrum augum. „Við vorum alveg heiðarlegir. Ég sá ekki betur en að þeir hefðu verið að hreinsa út af, og ég var ekkert að hugsa um neitt annað en að koma boltanum í leik aftur,“ sagði hann, maðurinn sem tók hið umdeilda innkast. Þá er vert að rifja það upp að Guðjón Þórðarson var þjálfari KR á þessum tíma, rétt eins og hann var þjálfari Skagamanna 2007 þegar Bjarni Guðjónsson skoraði umdeilt mark gegn Keflavík. Nei, ég bara segi svona.

Einhverjum þykir það vafalaust óþarfi að rifja upp jafn ómerkilegt atvik í íslenskri knattspyrnusögu og öðrum þykir ég bara vera tapsár. Bæði kann að vera rétt þó auðvitað sé þessi upprifjun fyrst og fremst til gamans gerð. Ég á marga góða félaga í KR, jafnvel þó aldrei hafi borist (svo ég viti til) formleg afsökunarbeiðni. En aðalatriðið er engu að síður það, að við megum ekki gleyma!

Þormóður Egilsson glottir við tönn, að vísu við allt annað …
Þormóður Egilsson glottir við tönn, að vísu við allt annað tilefni. Þarna var hann nýorðinn Reykjavíkurmeistari. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert