Spilar Albert Guðmunds á Íslandi í sumar?

Albert Guðmundsson gæti spilað sem lánsmaður hér á landi í …
Albert Guðmundsson gæti spilað sem lánsmaður hér á landi í sumar samkvæmt heimildum mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson gæti spilað á Íslandi í sumar samkvæmt heimildum mbl.is. Lið í úrvalsdeildinni, Pepsi Max-deildinni, hafa sýnt því áhuga að fá leikmanninn lánaðan en Albert kom aðeins við sögu í fjórum leikjum með AZ Alkmaar í hollensku úrvalsdeildinni á tímabilinu áður en deildinni var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins.

Albert er 22 ára gamall en hann fór meiddur af velli í 2:0-sigri AZ Alkmaar gegn Heracles í hollensku úrvalsdeildinni þann 29. september síðastliðinn. Við nánari skoðun kom í ljós að leikmaðurinn hafði brotið bein í ökkla og að hann yrði frá í fjóra til fimm mánaða en þegar Albert var að snúa aftur var gert hlé á fótboltanum í Evrópu vegna kórónuveirunnar.

Í lok apríl var svo ákveðið að aflýsa tímabilinu í Hollandi og var ekkert lið krýnt meistari þar í landi en AZ Alkmaar og Ajax voru í efstu tveimur sætum deildarinnar þegar mótinu var aflýst með 56 stig. Þá er AZ Alkmaar úr leik í Evrópudeildinni eftir tap gegn LASK og því ekkert sem stendur í vegi fyrir því að Albert spili hér á landi í sumar.

Albert er uppalinn hjá KR í Vesturbænum og er það eitt þeirra liða sem gæti falast eftir starfskröftum hans í sumar. Þá hefur Breiðablik einnig verið nefnt sem hugsanlegur áfangastaður leikmannsins í sumar en Albert á að baki 11 landsleiki fyrir A-landslið Íslands þar sem hann hefur skorað 3 mörk.

Hann var í HM-hópi Heimis Hallgrímssonar sem keppti á HM í Rússlandi og spilaði sinn fyrsta keppnisleik þegar hann kom inn á sem varamaður gegn Króatíu í lokakeppni HM í Rostov. Albert fór ungur að árum út í atvinnumennsku til Heerenveen í Hollandi árið 2013 og hefur því aldrei spilað meistaraflokksleik hér á landi.

mbl.is