Togað aftan í hnakkann á honum

Ásmundur Arnarsson
Ásmundur Arnarsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst spilamennska minna manna góð í kvöld,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, í samtali við mbl.is eftir 1:3-tap fyrir Breiðabliki á útivelli í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. „Við vorum að horfa á skemmtilegan leik með mörgum færum en munurinn liggur í því að annað liðið nýtti færin sín en hitt liðið ekki. Við lákum fullódýrum mörkum líka,“ bætti Ásmundur við. 

Þrátt fyrir tapið var hann sáttur við margt í leik sinna manna. „Við byrjum leikinn af krafti og fáum góð færi, skjótum í slá og komumst einir í gegn. Í seinni hálfleik fáum við víti sem við klikkum á. Við eigum mikið af færum sem vanalega telja en það er dýrt að nýta þau ekki í svona leik. Strákarnir eiga hrós skilið fyrir þá vinnu sem þeir lögðu í leikinn, gott skipulag og leikurinn var góður.“

Egill Arnar Sigurþórsson, dómari leiksins, hafði í nógu að snúast en hann dæmdi þrjú víti og gaf níu gul spjöld í leiknum. Ásmundur var ekki hrifinn af dómgæslunni í kvöld. 

„Mér fannst halla á okkur framan af í litlum atriðum. Þeir fengu að sópa okkur niður á vellinum og fóru mikið aftan í okkur. Það var tekið á því seint og þá urðum við pirraðir og fengum á okkur ódýr spjöld og menn voru klaufar.

Ég held það hafi getað orðið fleiri víti í þessum leik líka. Það er togað aftan í hnakkann á honum og farið með olnbogann í bakið á honum. Það fannst mér mesta vítið í þessum leik. Við þurfum að eiga við þetta þar sem við erum litla liðið í öllum leikjum. Við vitum að svona er þetta og við þurfum að berjast út úr því,“ sagði Ásmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert