Fékk gömlu lærisveinana í andlitið

Ásgerður Stefanía í baráttunni á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.
Ásgerður Stefanía í baráttunni á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var fínn og öruggur sigur,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 3:0-sigur liðsins gegn Stjörnunni í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Það er alltaf gott að halda hreinu og ég var virkilega ánægð með að ná að skora á þær snemma leiks enda er Stjarnan erfitt lið að brjóta niður. Við höfum byrjað alla leiki af miklum krafti og fremstu fjórir leikmenn liðsins hafa verið að setja mjög mikla pressu á mótherja okkur í fyrstu leikjum tímabilsins.

Þetta er ekkert sem við erum búnar að plana fyrirfram, þetta er bara meira okkar eðli sem lið, og Elín og Hlín keyra á þetta strax í upphafi leiks sem er frábært fyrir okkur. Mark snemma leiks gefur okkur líka smá andrími en við erum líka mjög meðvitaður um það að 1:0-forskot er lítið í fótbolta.“

Miðjumaðurinn lék með Stjörnunni í þrettán ár, áður en hún gekk til liðs við Val fyrir tímabilið 2019, en hún þjálfaði marga leikmenn Stjörnunnar sem hún var að mæta í dag.

„Ég er að sjálfsögðu Valsari í dag en ég þjálfaði margar af Stjörnustelpunum sem ég var að mæta í dag í 3. flokki. Það er alltaf erfitt að spila á móti gamla félaginu sínu en ég pældi sem minnst í því í dag. Ég kenndi þeim að mæta af hörku inn í alla leiki, þær mættu mér þannig í dag, og ég fékk þær í andlitið líka þannig að það var allt eins og það á að vera.“

Valskonur eru nú með 6 stiga forskot á toppi deildarinnar á Breiðablik sem er í sóttkví vegna kórónuveirunnar en Blikar eiga tvo leik til góða á Valsliðið.

„Það skiptir okkur engu máli þetta forskot sem við erum með. Við erum ekki að pæla í þeim, við einbeitum okkur að okkur sjálfum og mér er í raun alveg sama hvað við þær eru að gera. Við ætlum okkur að vinna þennan titil og það er það eina sem kemur til greina,“ bætti Ásgerður Stefanía við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert