Bann Sölva lengt fyrir ofsafengna framkomu

Sölvi Geir Ottesen er kominn í þriggja leikja bann.
Sölvi Geir Ottesen er kominn í þriggja leikja bann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sölvi Geir Ottesen, leikmaður knattspyrnuliðs Víkings í Reykjavík, var í dag úrskurðaður í þriggja leikja bann á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ. 

Sölvi fékk beint rautt spjald gegn KR á laugardag og fær fyrir það eins leiks bann. Sölvi brást afar illa við spjaldinu og reiddist mjög við dómara leiksins og er bannið því lengt um tvo leiki. 

Samherjar hans Kári Árnason og Halldór Smári Sigurðsson fá báðir eins leiks bann fyrir brottvísanir í sama leik. Missa þeir allir af leik Víkings og Vals á morgun. Auk leiksins við Val missir Sölvi af útileik gegn HK 12. júlí og heimaleik gegn ÍA 19. júlí. 

Patrik Orri Pétursson leikmaður Gróttu var úrskurðaður í eins leiks bann fyrir rauða spjaldið sem hann fékk gegn HK á laugardag. Verður hann ekki með Gróttu gegn Fjölni annað kvöld. 

Þá fékk Guðni Eiríksson þjálfari kvennaliðs FH tveggja leikja bann fyrir rautt spjald og ofsafengna framkomu í leik liðsins gegn Þrótti í gær. 

mbl.is