Komast til Eyja þrátt fyrir verkfall

Blikarnir Heiðdís Lillýardóttir og Kristín Dís Árnasdóttir og Eyjakonan Cloé …
Blikarnir Heiðdís Lillýardóttir og Kristín Dís Árnasdóttir og Eyjakonan Cloé Lacasse í leik liðanna á síðasta ári. mbl.is/Arnþór Birkisson

Leikur ÍBV og Breiðabliks í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu fer fram á morgun á Hásteinsvelli klukkan 17:30 jafnvel þó tímabundin vinnustöðvun skipverja Herjólfs standi yfir næstu tvo daga og geta félögin því ekki ferðast með báti til Eyja eins og yfirleitt er gert.

Herjólfur sendi frá sér tilkynningu í síðustu viku um verkfall 14. og 15. júlí og hafa ekki náðst samningar um annað. Ingibjörg Auður Guðmundsdóttir, formaður meistaraflokks ráðs kvenna hjá Breiðabliki staðfesti við mbl.is að leikmenn og þjálfarar munu þess í stað ferðast til og frá Vestmannaeyja með flugi.

Blikar eru í öðru sæti með níu stig úr þremur leikjum en liðið hefur ekki spilað síðan 23. júní eða eftir að leikmaður þess greindist með kórónuveiruna. Valsarar eru með fullt hús stiga eftir sína fimm leiki en ÍBV er með þrjú stig í 8. sæti og hefur spilað fjórum sinnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert