Stjarnan fer þess á leit að áfram verði spilað

Frá leik Stjörnunnar við ÍA fyrr í mánuðinum.
Frá leik Stjörnunnar við ÍA fyrr í mánuðinum. mbl.is/Árni Sæberg

Knattspyrnudeild Stjörnunnar hefur sent beiðni til KSÍ þar sem þess er farið á leit að áfram verði spilað í úrvalsdeildum án áhorfenda. 

Þetta herma heimildir mbl.is. 

Á upplýsingafundi almannavarna í dag kom fram að yfirvöld hefðu biðlað til íþróttahreyfingarinnar að fresta öllum íþróttamótum og keppnum fullorðinna í tíu daga, til 10. ágúst. 

KSÍ gaf einnig út fyrir stuttu að leikið yrði í kvöld samkvæmt leikskrá en að öllum leikjum yrði svo frestað til 5. ágúst. Þá ætlar sambandið að taka stöðuna á ný.

Samkvæmt heimildum lýsti Stjarnan yfir áhyggjum sínum af framhaldi úrvalsdeilda færi svo að ekki yrði spilað næstu 10 daga, en karlalið stjörnunnar hefur þegar misst af leikjum í Pepsi Max deildinni eftir að liðið þurfti allt að fara í sóttkví í kjölfar þess að leikmaður liðsins smitaðist. 

Stjarnan telur að verði hlé gert á mótinu muni það ekki klárast fyrir veturinn, en leikjaplan gerir ráð fyrir því að spilað verði í Pepsi Max deild karla fram út október. 

mbl.is