Toppliðið tapaði eftir ótrúlega dramatík

Njarðvík vann dramatískan sigur á toppliðinu.
Njarðvík vann dramatískan sigur á toppliðinu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Topplið Hauka tapaði á móti Njarðvík á heimavelli, 1:2, í 2. deild karla í fótbolta í kvöld. Kom sigurmarkið úr vítaspyrnu eftir dramatískan lokakafla. 

Kristófer Dan Þórðarson kom Haukum yfir á áttundu mínútu en Kenneth Hogg jafnaði rétt fyrir leikhlé og var staðan í hálfleik 1:1. 

Þannig var hún allt fram að lokamínútunni þegar Þórður Jón Hafsteinsson gerðist brotlegur inn í teig, fékk beint rautt spjald, og Marc McAusland skoraði sigurmarkið úr víti. Haukar létu mótlætið fara illa í sig því Sigurjón Már Markússon fékk sömuleiðis rautt spjald í blálokin. 

Þrátt fyrir úrslitin eru Haukar enn í toppsætinu með 18 stig, einu stigi á undan Kórdrengjum og Njarðvík, en Kórdrengir eiga leik til góða. 

Gott gengi Þróttar úr Vogum eftir að Hermann Hreiðarsson tók við liðinu hélt áfram í kvöld. Þróttarar unnu 3:2-heimasigur á Víði. Hólmar Örn Rúnarsson og Guðmundur Marínó Jónsson komu Víði í 2:0, en Alexander Helgason minnkaði muninn í 2:1 á 18. mínútu. 

Jordan Tyler fékk beint rautt spjald hjá Víði á 25. mínútu og Þróttarar nýttu sér liðsmuninn. Stefan Spasic skoraði sjálfsmark á 78. mínútu og Alexander Helgason tryggði 3:2-sigur með sínu öðru marki á 88. mínútu. Þróttur er í fjórða sæti með 16 stig. 

Þá vann KF 4:2-sigur á Fjarðabyggð á heimavelli þrátt fyrir að Fjarðabyggð komst í 2:0 með mörkum Guðjóns Mána Magnússonar og Vice Kendes. Ljubomir Delic og Theodore Wilson skoruðu tvö mörk hvor fyrir KF og tryggðu liðinu sætan sigur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert